is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Auðlinda- og umhverfisdeild (2017-2019) > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30675

Titill: 
 • Burðarerfiðleikar sauðfjár
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Markmið rannsóknarinnar var að meta tíðni og eðli burðarerfiðleika hjá íslenskum ám með því að taka saman öll tiltæk gögn um burðarerfiðleika. Unnið var úr gögnum sem til voru um burðarvandamál hér á landi en skráning var gerð á tilraunabúinu á Hesti árin 2010-2014 og þá hefur einnig verið gerð hliðstæð skráning í Fjárvís síðustu árin en notast var við gögn frá árunum 2015-2016.
  Niðurstöðurnar gáfu til kynna að burðarvandamál megi m.a. rekja til náins samspils fæðingarþunga við kyn lamba, fjölda lamba í burði og aldur móður en einnig kom í ljós að tengsl eru á milli burðarvandamála við röð lamba í burði og burðardag innan árs. Hrútlömb þurftu oftar á burðarhjálp að halda heldur en gimbralömb sem má m.a. rekja til hornastærðar þeirra en hrútlömbin reyndust einnig vera þyngri heldur en gimbralömbin. Einlembingar þurftu oftast á burðarhjálp að halda, þar á eftir komu þrí- og fjórlembingar en sjaldnast þurfti að hjálpa tvílembingum. Einlembingar reyndust vera þyngri heldur en fleirlembingar en almennt voru lömb sem þurftu á burðarhjálp að halda þyngri heldur en lömb sem þurftu ekki á burðarhjálp að halda. Veturgamlar ær og ær sem voru sex vetra og eldri þurftu oftar á burðarhjálp að halda heldur en ær á aldrinum tveggja til fimm vetra. Þá var algengast að hjálpa þyrfti fyrsta lambinu hjá ám sem áttu fleiri en eitt lamb, því næst öðru lambinu en sjaldnast þurfti að hjálpa þriðja/fjórða lambinu. Burðarhjálp var minnst fyrstu daga sauðburðar eða dagana 19.-25.apríl og síðustu daga sauðburðar en mest var burðarhjálp dagana 3.-9.maí.
  Yfirlit yfir tíðni skráninga á burðarhjálp í skýrsluhaldi Fjárvís gáfu til kynna að yfir heildina litið væri ekki nógu mikið skráð. Að vissu leyti má því segja að skráningar á burðarvandamálum í skýrsluhaldi Fjárvís hafi ekki náð tilgangi sínum en til þess að hægt sé að fá heildstæða yfirsýn yfir tíðni og eðli burðarerfiðleika hér á landi er því líklegt að efla þurfi skráningar á burðarerfiðleikum.
  Niðurstöðurnar gefa til kynna að með því að skrá tíðni og eðli burðarerfiðleika hjá íslenskum ám sé hægt að afla þekkingar sem megi nýta til þess að hafa áhrif á hagkvæmni framleiðslu sauðfjárbúa og er því full ástæða til þess að skoða það að efla skráningu á burðarerfiðleikum með það að markmiði að taka tillit þeirra í ræktunarstarfinu svo hægt sé að fylgja eftir ræktunarmarkmiðum fyrir íslenska sauðfjárrækt.

Samþykkt: 
 • 7.6.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30675


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Pálína_Pálsdóttir_BS_ritgerð.pdf877.25 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna