Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/30719
Það gæti komið ýmsum á óvart að í sauðfjárræktarlandinu Íslandi er þekking á áhrifum sauðfjárbeitar á þau tré sem notuð eru hér í skógrækt takmörkuð. Einungis ein rannsókn hefur verið gerð á áhrifum mismunandi beitarþunga sauðfjár í skóglendi á Íslandi, en rannsóknin sem fjallað er um í þessari ritgerð er sú fyrsta sem gerð er á áhrifum mismunandi beitarþunga sauðfjár á rússalerki (Larix sukaczewii) sem er mest ræktaða trjátegundin til fjölnytjaskógræktar hérlendis.
Sett var upp beitartilraun í Garði í Kelduhverfi, sem stóð yfir sumurin 2015 og 2016, með þrenns konar beitarþunga, ásamt friðuðu hólfi og beittri afrétt til samanburðar. Skoðuð voru áhrif á ungan (9-14 ára) lerkiskóg með um þriggja metra yfirhæð, en einstök lerkitré voru á bilinu 12cm – 301cm. Helstu niðurstöður voru að beitin hafði engin áhrif á vöxt og viðgang lerkisins, engar skemmdir voru á toppsprotum né berki. Engin áhrif mældust á framleiðni skógarins. Hinsvegar urðu bæði sjónræn og mælanlega marktæk áhrif af beit á greinar trjánna í þungbeitta og meðalbeitta beitarhólfinu. Marktæk beitaráhrif urðu einnig á botngróður. Sjónmat bæði árin leiddi í ljós mun á friðaða hólfinu og öllum hinum, ásamt milli afréttar og þung- og meðalbeitta hólfsins. Einnig var marktækur munur á beitaráhrifum á léttbeitta hólfinu og þung- og meðalbeitta hólfinu sumarið 2015, en einungis milli léttbeitta og meðalbeitta hólfsins sumarið 2016. Þótt gróðursett birki hafi ekki verið hluti af tilrauninni þá er vert að geta þess að mikil beitaráhrif sáust á því í meðalbeitta og þungbeitta hólfinu.
Hluti rannsóknarinnar var spurningakönnun sem gerð var á meðal allra þeirra skógarbænda með þinglýsta skógræktarsamninga sem jafnframt voru með yfir fimmtíu vetrarfóðraðar kindur. Í spurningakönnininni var leitað eftir viðhorfum þeirra til beitar í skógi almennt en einnig í eigin skógi. Voru svarendur almennt hlynntir beit í skógi og vildi töluverður meirihluti þeirra beita eigin skóg eða rækta sérstakan skóg til beitar. Almennt voru viðhorf jákvæð til beitar í skógi.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
MS-ritgerð_Guðríður_B.pdf | 4.59 MB | Open | Complete Text | View/Open |