is Íslenska en English

Lokaverkefni

Háskóli Íslands > Þverfræðilegt nám > Lýðheilsuvísindi >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30738

Titill: 
 • Heilsa og líðan Mývetninga
Útdráttur: 
 • Bakgrunnur: Regluleg hreyfing, hollt mataræði, lífsgæði, fjölskylda, lífskjör, hamingja og svefn leggja grunn að góðri heilsu og líðan, og geta dregið úr ýmsum lífstílssjúkdómum eins og t.d. offitu og sykursýki. Ráðlögð dagleg hreyfing fyrir fullorðna eru minnst 30 mínútur við miðlungserfiða eða erfiða áreynslu en hreyfingarleysi er einn stærsti áhættuþáttur ótímabærra dauðsfalla í heiminum í dag. Er það einkum vegna aukinnar kyrrsetu meðal fólks í vinnu og frítíma, meðal annars vegna aukinnar tækniþróunar. Því er mikilvægt að nánasta umhverfi fólks hvetji til reglulegrar hreyfingar, aðgangi að hollum og fjölbreyttum mat, auki lífsgæði og lífskjör og stuðli að hamingju fólks. Nálgunin Heilsueflandi samfélag leggur áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa samfélagsins séu í fyrirrúmi á öllum sviðum stefnumótunar og íbúum þannig veitt góð tækifæri til að þroskast í leik og starfi.
  Markmið: Að meta heilsu og líðan íbúa Mývatnssveitar (Skútustaðahrepps) og sjá hvernig Mývetningar standa í samanburði við aðra íbúa heilbrigðisumdæmi Norðurlands. Jafnframt að kanna áhuga Mývetninga á því að Skútustaðahreppur verði Heilsueflandi samfélag og hvað þeir vilji sjá gerast í framtíðinni til að bæta andlega og líkamlega líðan Mývetninga.
  Aðferðir og efniviður: Þversniðsrannsókn þar sem spurningalisti unninn upp úr spurningalista rannsóknar Embætti landlæknis, Heilsa og líðan Íslendinga, var sendur til þátttakenda sumarið 2016. Spurt var um hreyfingu, kyrrsetu, svefn, hamingju, menntun, stöðu, vinnu og álag, hjúskaparstöðu og önnur atriði sem öll snúa að heilsu og líðan Mývetninga á einn eða annan hátt. Spurningalistinn var sendur á 329 þátttakendur, 135 svöruðu og var svarhlutfall rannsóknar 41%. Jafnframt voru skoðaðar niðurstöður úr Heilsa og líðan Íslendinga fyrir þátttakendur í heilbrigðisumdæmi Norðurlands árin 2007, 2009 og 2012 til samanburðar.
  Niðurstöður: Andleg og líkamleg heilsa Mývetninga er almennt góð eða mjög góð, en 83% þátttakenda segja andlega heilsu sína vera góða eða mjög góða og 77% þátttakenda segja það sama um líkamlega heilsu sína. Um 62% segjast vera hamingjusamir, en aftur á móti segjast um 14% eyða átta klukkustundum eða meira á dag við kyrrsetu. Meirihluti þátttakenda stunda einhverja hreyfingu einu sinni í viku eða oftar og varir áreynslan að jafnaði í meira en 30 mínútur. Heilsufar eða skert athafnargeta háir Mývetningum ekki nema við mikla líkamlega áreynslu og aðeins fleiri þátttakendur segjast upplifa meira vinnuálag yfir sumartímann en þeir gera á veturna. Mataræði þátttakenda er að jafnaði gott, þeir borða gjarnan ráðlagðan skammt af fiski, ávöxtum og grænmeti, drekka lítið af sykruðu gosi og neyta lítils sælgætis og skyndibita. Aðeins 8% þátttakenda reykja, og þar af reykja 5% þeirra daglega, en um 60% þátttakenda hafa aldrei reykt. Meirihluti Mývetninga drekka oftast einn til tvo drykki þegar þeir neyta áfengis, sem er að jafnaði einu sinni til þrisvar í mánuði eða sjaldnar. Þessum niðurstöðum svipar til niðurstaðna fyrir þátttakendur heilbrigðisumdæmi Norðurlands í Heilsa og líðan Íslendinga.
  Ályktun: Allajafna eru Mývetningar við góða eða mjög góða andlega og líkamlega heilsu, eru hamingjusamir, stunda reglulega hreyfingu og borða hollan mat. Ríflega 70% Mývetninga eru jákvæðir fyrir því að sveitarfélagið verði Heilsueflandi samfélag. Íbúar telja flestir að auka þurfi almenna hreyfingu meðal íbúa og skapa frekari tækifæri til að stunda hreyfingu að staðaldri til að bæta andlega, líkamlega og ekki síst félagslega líðan íbúa. Sumarið 2017 varð Skútustaðahreppur formlega Heilsueflandi samfélag, en lengi má gott bæta. Því er mikilvægt að vera ávallt vakandi fyrir þeim öllum tækifærum sem til falla til að bæta heilsu og líðan Mývetninga.

Samþykkt: 
 • 8.6.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30738


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Mph - lokaútgáfa Jóhanna Jóhannesdóttir.pdf2.08 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
leyfisbréf skemma.pdf54.65 kBLokaðurYfirlýsingPDF