Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3074
Ráðherraábyrgð er grundvölluð í 14.gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 þar sem segir
að ráðherrarnir beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdunum og kveðið skuli á um
ráðherraábyrgð með lögum. Alþingi geti þá kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra
og meðferð slíkra mála sé rekin fyrir landsdómi. Þetta er hornsteinn hinnar lagalegu
ábyrgðar ráðherra sem til umfjöllunar er í þessari ritgerð.
Ábyrgð ráðherra er tvíþætt. Stjórnmálaleg og lagaleg og er þessi tvíeðli
ábyrgðarinnar svo kyrfilega samofin að umfjöllunin mun ávallt mótast af þessu
samspili þessara tveggja þátta. Rakin verður aðdragandi lagasetningar um
ráðherraábyrgð hér á landi og þingræðisregluna. Í ritgerðinni verður leitast við að
varpa ljósi á lög nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð. Þau efnislegu skilyrði sem þar eru sett
sem grundvöllur fyrir lagalegri ábyrgð ráðherra og þær refsiheimildir sem lögin
innihalda. Jafnframt verða lög um landsdóm nr. 3/1963 reifuð, skipan hans, ákærurétt
Alþingis vegna embættisbrota ráðherra og þær málsmeðferðarreglur sem gilda um
mál fyrir dómstólnum.
Umfjöllun um ráðherraábyrgð markast af því að ekki hefur reynt á lög um
ráðherraábyrgð og ekki hefur verið réttað yfir ráðherra hér á landi vegna
embættisbrota hans. Umfjöllun um efnið kann því á köflum að verða ansi fræðileg.
Litið verður til danskrar réttarframkvæmdar á þessu sviði en dönsk lög um
ráðherraábyrgð eru áþekk þeim íslensku og reynt að draga ályktanir af þeirri
framkvæmd fyrir íslenskan rétt. Kannað verður hvernig lög um ráðherraábyrgð og
landsdóm fullnægja kröfum Mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindaákvæða
stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð og skýrleika refsiheimilda. Að lokum
verður reynt að leita svara við þeirri spurningu hvers vegna hafi ekki reynt á lög um
ráðherraábyrgð og með hvaða hætti væri unnt að virkja ábyrgð ráðherra og styrkja
Alþingi í lögboðnu eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdavaldinu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
pd_fixed.pdf | 224.72 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |