is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3075

Titill: 
 • Ærumeiðingar á Internetinu
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Flestir myndu taka undir þá staðhæfingu að Internetið og þeir óteljandi möguleikar sem það býður upp á sé dásamleg uppfinning. Með tilkomu þess varð ákveðin bylting í mannlegum samskiptum. Það gerir okkur nú kleift að hafa samband við nánustu ættingja og vini, stadda út í hinum stóra heimi, með afskaplega lítilli fyrirhöfn. Nú þarf aðeins að kveikja á tölvu og maður er kominn í talsamband við manneskju sem maður sér á skjánum.
  Internetið sparar líka tíma, hvort sem það er í námi, starfi eða afþreyingu. Alls kyns gögnum og upplýsingum er nú hægt að miðla inn á sérgreinda vefi, sem annaðhvort allur almenningur hvaðanæva úr heiminum eða aðeins takmarkaður hópur fólks getur nálgast og notfært sér. Tölvupóstssamskipti færast í aukana með degi hverjum og þótt tölvupósturinn hafi ekki ennþá komið alfarið í stað hins rótgróna bréfapóstkerfis liggur þróunin í þá átt. Staðreyndin er einfaldlega sú að fyrrnefnda aðferðin er bæði einfaldari og fljótvirkari.
  Fjölmiðlar hafa nú einnig gert Internetið að sínu. Efni sem fjölmiðlar hafa gefið út og miðlað í gegnum blöð, tímarit, sjónvarp og útvarp er nú einnig sett inn á Internetið, þar sem einfalt er að nálgast það. Þróunin á þessum vettvangi er með ólíkindum ör og við sjáum eitthvað nýtt líta dagsins ljós á degi hverjum.
  En Internetinu fylgja allskostar ekki aðeins jákvæðir og frábærir hlutir sem gera líf okkar þægilegra. Eins og með fjölmargar uppfinningar mannkynssögunnar, þá er mögulegt að misnota það til illverka. Eitt af þeim eru ærumeiðingar, sem hafa verið við lýði í ýmsum myndum frá örófi alda. Meginefni þessarar ritgerðar lýtur að ærumeiðingum á Internetinu og þeirri ábyrgð sem krafist er á meiðandi efni sem þar er birt. Verður farið yfir helstu réttarreglur sem gilda á þeim vettvangi, hvernig íslenskri dómaframkvæmd er háttað og lögsaga dómstóla skoðuð.
  Í öðrum kafla ritgerðarinnar verður skýrt frá einum af okkar dýrmætustu mannréttindum, tjáningarfrelsinu, sem nú er rækilega varið af stjórnarskrám allflestra lýðræðisríkja. Þar verður einnig gerð grein fyrir nauðsynlegum takmörkunum á þessu frelsi og þá sérstaklega þeirri sem grundvallast af æruvernd.
  Í þriðja kafla verður vikið að æruhugtakinu, merkingu þess og nauðsyn þeirri sem er undirstaða grundvallarreglunnar að æran sé lögvernduð fyrir óréttmætum árásum.
  Í fjórða kafla verður í stuttu máli skýrt frá hugtakinu fjölmiðill og útskýrt að Internetið falli þar undir.
  Í fimmta kafla verður svo vikið að aðalefni ritgerðarinnar, eða að ábyrgð þeirri sem fylgir ærumeiðandi efni Internetsins. Reifaðar verða helstu reglur sem koma þar til álita en þar sem löggjafinn hefur enn einungis að litlu leyti sett lög sem taka á Internetinu þarf að notast við aðrar réttarheimildir. Með það í huga verður farið yfir dómaframkvæmd á þessu sviði.
  Að lokum verður svo í sjötta kafla vikið að lögsögu í málum vegna ærumeiðinga á Internetinu og þá sérstaklega hvernig reglum landsréttar er háttað miðað við reglur þær sem gilda að þjóðarétti.

Samþykkt: 
 • 23.6.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3075


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
pd_fixed.pdf424.75 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna