is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30759

Titill: 
  • Gæðaeftirlit með ómhausum á Íslandi: Könnun um gæðaeftirlit með áherslu á þátttöku ómskoðara
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Tilgangur ómtækjaeftirlits er að viðhalda fullnægjandi gæðum tækis og að koma í veg fyrir að bilanir hafi áhrif á greiningargildi mynda og öryggi sjúklings. Reglulegt gæðaeftirlit með ómtækjum getur innihaldið marga mismunandi þætti og aðferðir, en þar má nefna sem dæmi almenna yfirferð tækis, sýkingavarnir, myndgæða- og ómhausamælingar.
    Erlendar rannsóknir hafa gefið vísbendingar um hátt hlutfall bilaðra ómhausa í klínískri notkun. Einnig hefur komið fram að árlegt gæðaeftirlit virðist ekki fullnægjandi. Dæmi er um að árlegt hlutfall bilana í ómhausum sé að meðaltali 13,9%. Þar sem þörf virðist á tíðara eftirliti hefur aukin áhersla verið lögð á þátttöku ómskoðara. Þróaðar hafa verið einfaldari aðferðir sem bæði eru fljótlegar og ódýrar, svo sem mat á loftmyndum. Í rannsóknum síðustu ára hafa komið fram sterkar vísbendingar um skilvirkni þessara einföldu aðferða við gæðaeftirlit. Talið er að með þeim megi finna meirihluta bilana í ómtæki. Mælt hefur verið með notkun þeirra sem fyrsta stigi í gæðaeftirliti.
    Markmið: Megin tilgangur þessa verkefnis er að afla upplýsinga um hvernig eftirliti með ómhausum er háttað á Íslandi og þá sérlega hvort ómskoðarar notfæri sér einfaldar eftirlitsaðferðir í starfi sínu. Vonast er til þess að niðurstöður gefi vísbendingar um hvort þörf sé á breytingum í verklagi.
    Efni og aðferðir: Netkönnun var send á 129 ómskoðara og gæðaeftirlitsaðila um land allt sem innihélt 38 spurningar í fjórum hlutum. Svarhlutfallið var 49,6%. Þar sem svör bárust nær eingöngu frá ómskoðurum var ákveðið að hluti gæðaeftirlitsaðila yrði tekinn út. Þess í stað var viðtal tekið við tvo eftirlitsaðila. Í niðurstöðum könnunarinnar var notast við lýsandi tölfræði. Wilcoxon og Fisher tölfræðipróf voru notuð fyrir valdar spurningar (p<0,05).
    Niðurstöður: Í heildina svöruðu 64 ómskoðarar könnuninni. Um þriðjungur ómskoðara (16/56) svaraði því að gæðaeftirlit væri ekki til staðar á vinnustaðnum og sögðu 16% (9/56) eftirlitið vera reglulegt. Vinnustaðir sem hafa gæðaeftirlit reyndust framkvæma marktækt fleiri rannsóknir á mánuði. Meirihluti ómskoðara virtist almennt vera lítið upplýstur um fyrirkomulag gæðaeftirlits. Fáir ómskoðarar sögðust þekkja einfaldar aðferðir við mat á virkni ómhausa eða nýta sér þær í starfi.
    Ályktun: Niðurstöður gefa vísbendingu um að meiri stöðlun eða aukið eftirlit með ómhausum ásamt kennslu einfaldra eftirlitsaðferða fyrir ómskoðara geti leitt til umbóta miðað við núverandi aðferðir.

Samþykkt: 
  • 11.6.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/30759


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerð Kristín.pdf5,9 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing Kristín.pdf1,72 MBLokaðurYfirlýsingPDF