Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30787
Bakgrunnur: Þegar barn þarf á gjörgæsluinnlögn að halda sýna erlendar rannsóknir að foreldrar upplifi streitu og erfiðar tilfinningar í kjölfarið. Rannsókna sýna einnig að hluti foreldra nær ekki að vinna úr þessum tilfinningum og eru þeir í hættu á að þróa með sér áfallastreitruröskun. Á Íslandi er ekki til sérstök barnagjörgæsla, heldur eru gjörgæsludeildir Landspítalans blandaðar gjörgæslur fullorðinna og barna. Umfang innlagna barna á gjörgæsludeildir hér á landi og upplýsingar um líðan foreldra þeirra er ekki þekkt svo vitað sé.
Markmið: Að kortleggja fjölda innlagðra barna á gjörgæsludeildir Landspítala á árunum 2006 - 2015, legutíma á gjörgæslu, alvarleika veikinda, innlagnarástæður og helstu gjörgæslumeðferðir. Einnig að kanna líðan foreldra sem áttu börn á gjörgæsludeildunum á árinu 2017.
Aðferð: Rannsóknin er tvískipt. Í fyrri hluta var notast við afturskyggnt rannsóknarsnið þar sem skoðaðar voru innlagnir barna á gjörgæsludeildir Landspítalans á árunum 2006 - 2015. Í seinni hluta var notast við framskyggnt rannsóknarsnið til að kanna líðan 22 foreldra 14 barna sem lágu á gjörgæsludeildum spítalans á árinu 2017. Fyrri hluti rannsóknarinnar var nýttur til að átta sig á fulltrúagildi úrtaksins í síðari hluta rannsóknarinnar. Lagðir voru fyrir foreldra þrír spurnignalistar, PCL – 5 sem metur áfallastreitu, SCL-90 sem metur andlega og líkamlega líðan og PSS:PICU sem metur líðan foreldra sem hafa nýlega átt börn á gjörgæsludeild.
Niðurtöður: Alls lögðust inn 439 börn í 674 innlögnum á gjörgæsludeildir Landspítalans á árunum 2006 – 2015. Flestar innlagnir (80%) barna voru bráðainnlagnir og voru helstu innlagnarástæður öndunarbilun og/eða lungnabólga og vandamál frá taugakerfi. Á rannsóknartímabilinu létust 22 börn (5,01%). Í framskyggna úrtaki foreldra uppfylltu tæplega 20% þeirra greiningarskilmerki áfallastreitu. Áreiti frá hljóðum og sýn, útlit barnsins og að sjá barnið þurfa að upplifa sársaukafullar aðgerðir olli mestu álagi. Allir sjö álagsflokkar PSS:PICU ná vel utan um upplifað álag foreldra og samræmast erlendum rannsóknum.
Ályktun: Fjöldi innlagna barna á gjörgæsludeildir Landspítala eru fleiri en talið var í upphafi. Fimmtungur foreldra uppfylla greiningarskilmerki áfallastreitu og er það í samræmi við erlendar rannsóknir og gefur það tilefni til frekari skoðunar og mögulegrar íhlutunar er varðar líðan foreldra sem eiga alvarlega veik börn á gjörgæsludeild. Það sama gildir um álag sem þeir upplifa. Þessar niðurstöður sýna að efla þarf fræðslu og þekkingu starfsmanna gjörgæsludeildanna á hjúkrun alvarlegra veikra barna og aðferðum til að mæta þörfum foreldra þeirra.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
SigríðurÁrnaGísladóttir Lokaritgerð MS hjúkrun.pdf | 5.06 MB | Lokaður til...01.06.2028 | Heildartexti | ||
SkemmanYfirlýsingSÁG.pdf | 130.49 kB | Lokaður | Yfirlýsing |