is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30827

Titill: 
 • Athugun á hljóðavitund og örvun íslensku málhljóðanna í leikskólum með sérstakri áherslu á Hljóðasmiðju Lubba
 • Titill er á ensku Phonemic awareness and speech sound stimulation in Icelandic preschools using Hljóðasmiðja Lubba
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Inngangur: Tengsl málþroska og lesturs eru órjúfanleg og er góður málþroski talinn nauðsynleg undirstaða góðrar lestrarfærni. Kennsluefnið Lubbi finnur málbein þ.e.a.s bókin Lubbi finnur málbein – íslensku málhljóðin sýnd og sungin og Hljóðasmiðja Lubba er notað í leikskólum víðvegar um land. Það er því mikilvægt að rannsaka hvort sérhæft málörvunarefni eins og Lubbi finnur málbein þjóni tilgangi sínum með því að örva hljóðkerfisvitund, hljóðavitund og íslensku málhljóðin. Þótt Hljóðasmiðju Lubba fylgi handbók um notkun efnisins liggur ekki nógu skýrt fyrir hvernig nákvæmlega skuli vinna með örvun íslensku málhljóðanna í leikskólum. Æskilegt er að öllu mál- og hljóðörvunarefni fylgi nákvæmar kennsluleiðbeiningar þar sem notkun á kennsluefninu er skilgreind eftir aldri barna.
  Markmið: Markmið þessarar rannsóknar var annars vegar að afla upplýsinga um á hvaða hátt Lubbaefnið er notað í leikskólum á Íslandi, hvort kennsluefnið er notað til að örva notkun íslensku málhljóðanna, efla hljóðkerfisvitund og styrkja hljóðtengingu sem er nauðsynlegt fyrir áframhaldandi lestrarnám. Enn fremur var athugað hvort málörvunarefnið um Lubba sé notað markvisst í samræmi við hugmyndir höfunda eins og fram kemur í handbók kennsluefnisins um örvun í málhljóðamyndun og hljóða- og hljóðkerfisvitund. Að síðustu var kannað hvort notkun efnisins samræmist megin hugmyndum um snemmbúið læsi eins og fram kemur í læsisstefnum sveitarfélaga.
  Efni og aðferð: Gerð var könnun í formi rafræns spurningalista sem sendur var í alla leikskóla á Íslandi og spurt nákvæmlega um hvort og hvernig efnið um Lubba væri notað. Einnig voru tekin eigindleg rannsóknarviðtöl við tvo sérkennslustjóra hjá leikskólum sem nota kennsluefnið.
  Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að leikskólakennarar þekkja kennsluefnið og notkun kennsluefnisins innan leikskóla er töluverð. Kennsluefnið virðist vera notað á mismunandi hátt hjá börnum á leikskólaaldri til eflingar málhljóða íslenskunnar, hljóðkerfisvitundar þ.e. hljóðavitundar en einnig er það notað til þess að vinna með orðaforða og almenna málörvun. Mikill áhugi er á að nýta kennsluefnið þótt e.t.v. skorti yfirsýn og skilning á því hvernig best skuli nýta það í daglegu leikskólastarfi. Það virðist að vissu marki skorta skilning á hver raunverulegur tilgangur eða hugmyndafræði liggi til grundvallar með markvissri notkun á efninu.
  Ályktanir: Út frá niðurstöðum rannsóknarinnar má álykta að kennsluefnið Lubbi finnur málbein sé notað í mörgum leikskólum á Íslandi. Notkunin er þó ekki alltaf nógu markviss m.a. varðandi vinnu með íslensku málhljóðin út frá tileinkunarröð og er nauðsynlegt að vinna að aldursskiptum kennsluleiðbeiningum. Lubbaefnið og notkun þess virðist henta vel til að styrkja læsisstefnur sveitarfélaga (a.m.k Reykjavíkurborgar) þar sem að kennsluefnið miðar að eflingu hljóðkerfis- og hljóðavitundar sem og orðaforða. Hinsvegar bendir margt til að innleiðing og kennsla þess samkvæmt handbók sé ákaflega misjöfn eftir leikskólum.

Samþykkt: 
 • 11.6.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30827


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð Vigdís.pdf1.35 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
unnamed.pdf500.7 kBLokaðurYfirlýsingPDF