Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3083
Í kjölfar umræðna á alþjóðavettvangi, sem áttu sér stað á 8. áratug síðustu aldar, um leiðir til að bæta stöðu brotaþola, kom upp umræða hér á landi um nauðsyn þess að lögfesta úrræðið nálgunarbann, líkt og þegar hafði verið gert í Noregi og Svíþjóð. Árið 2000 var lögum um meðferð opinberra mála breytt og sett voru inn ákvæði er kváðu á um heimild fyrir dómara til að úrskurða aðila í nálgunarbann að kröfu lögreglu. Tilgangur breytinganna var sá að bæta stöðu þolenda ofsókna og ofbeldis og veita þeim vernd. Þá voru þolendur heimilisofbeldis sérstaklega hafðir í huga.
Framkvæmd úrræðisins hefur sætt gagnrýni í gegnum árin og hefur það ekki þótt ná tilgangi sínum. Gagnrýnin hefur aðallega beinst að því að úrræðið hefur þótt of þungt í vöfum, skilyrðin of ströng og málsmeðferðartíminn hefur þótt of langur. Einnig hefur það fyrirkomulag, að ákvörðunarvaldið sé í höndum dómstóla verið gagnrýnt, en talið hefur verið að það eigi að vera í höndum lögreglu.
Þann 1. janúar 2009 taka gildi sérstök lög um nálgunarbann, en lögin hafa í för með sér ákveðnar efnisbreytingar, sem gerðar voru með það að markmiði að auka skilvirkni úrræðisins og bæta réttarstöðu þeirra sem óska eftir nálgunarbanni.
Lítið hefur verið um fræðiskrif varðandi þetta réttarúrræði fyrir brotaþola. Í þessari meistaranámsritgerð er að finna fræðilega umfjöllun um úrræðið nálgunarbann og yfirlit yfir framkvæmd þess frá gildistöku ákvæðanna árið 2000 til dagsins í dag. Markmið ritgerðarinnar er að gera grein fyrir því hvernig úrræðið hefur reynst í framkvæmd, og leitast við að svara því hvort sú gagnrýni sem komið hefur fram sé réttmæt.
Í fyrstu verður gerð grein fyrir réttarstöðunni fyrir gildistöku laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála (nálgunarbann) nr. 94/2000. Fyrir árið 2000 var í gildi ákvæði 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en þar var að finna úrræði svipað nálgunarbanni. Við samningu kaflans um þetta ákvæði var stuðst við fræðiskrif í Danmörku varðandi sambærilegt ákvæði dönsku hegningarlaganna, ákvæði 265. gr.
Í 3. kafla er að finna yfirlit yfir framkvæmd núgildandi lagaákvæða um nálgunarbann. Við upphaf samningu ritgerðarinnar, í september 2008, óskaði höfundur eftir því við héraðsdómstóla landsins að fá aðgang að þeim úrskurðum sem fallið hafa frá gildistöku ákvæðanna um nálgunarbann árið 2000 til dagsins í dag, en alls var um 47 úrskurði að ræða. Í kaflanum eru því einstakir úrskurðir teknir til frekari skoðunar en jafnframt er þar að finna tölfræðilegar upplýsingar um úrskurðina varðandi nokkur almenn atriði sem höfundi þóttu mikilvæg. Þá verður einnig litið til annarra ákvæða íslenskra laga sem kveða á um nálgunarbann og sambærileg úrræði.
Í 4. kafla ritgerðarinnar verður fjallað um lög nr. 122/2008 um nálgunarbann sem taka gildi 1. janúar 2009. Þá verður litið til þeirra breytinga sem lögin hafa í för með sér og þau álitaefni sem komu upp í tengslum við setningu laganna.
Að lokum verður í 5. kafla litið yfir réttarstöðuna á Norðurlöndunum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
pd_fixed.pdf | 1.11 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |