Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31056
Rannsókn þessi snýst um mikilvægi réttrar líkamsbeitingar þegar kemur að áhættuþáttum meiðsla eins og krossbandaslitum í hné. Slit á krossbandi eru algeng meiðsl hjá íþróttafólki og töluvert algengara meðal kvenna. Áhættuþættir krossbandaslita eru margir en þar má meðal annars nefna valgus stöðu í hné sem veldur auknu álagi á krossbandið. Farið verður ítarlega í uppstökks- og lendingartækni í stökkum og styrkinn sem knattspyrnumenn þurfa að hafa til að sporna gegn þessu álagi. Í nóvember árið 2017 voru framkvæmdar mælingar á fjórum kvennalandsliðum Íslands í knattspyrnu, U16, U17, U19 og U23. Alls framkvæmdu 82 leikmenn tvenns konar lóðrétt stökkpróf, annars vegar án atrennu og hins vegar með þriggja skrefa atrennu. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hreyfimynstur og skima fyrir krossbandaáverkum með því að greina stökk leikmanna með áherslu á líkamsbeitingu. Þátttakendur voru flokkaðir í áhættuhópa á að slíta krossband út frá hornagráðu í uppstökki og lendingu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu ekki marktækan mun á milli kvennalandsliða í uppstökki, né lendingu innan stökk tegundar, hvorki í CMJ án atrennu eða CMJ með þriggja skrefa atrennu. Þá var marktækur munur á líkamsbeitingu þátttakenda í uppstökki milli tegunda stökkprófa, þar sem marktækt fleiri þátttakendur eða 46% þátttakenda voru með slæma líkamsbeitingu í CMJ með þriggja skrefa atrennu en 21% þátttakenda með slæma líkamsbeitingu í CMJ án atrennu. Hins vegar var ekki marktækur munur á líkamsbeitingu þátttakenda í lendingu milli tegunda stökkprófa. Ágóði verkefnisins er að umræða skapist hjá almenningi um mikilvægi forvarna gegn meiðslum í knattspyrnu og að sú vitundarvakning muni minnka tíðni krossbandaslita.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhættugreining á krossbandaslitum íslenskra kvennalandsliða í knattspyrnu.pdf | 594.85 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |