is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3112

Titill: 
 • Ákvörðun refsingar þegar brotamaður er kona, með áherslu á ofbeldisbrot
Námsstig: 
 • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Umræða um afbrot og refsingar hefur síðustu ár sífellt orðið fyrirferðarmeiri á öldum ljósvakans. Íslenskur almenningur virðist hafa mikinn áhuga á refsingum og umræða um refsihæð hefur oft á tíðum verið afar lífleg, ekki síst varðandi ofbeldis- og kynferðisbrot. Í þessari miklu almennu umræðu um refsingar og tímalengd refsinga hefur því meðal annars stundum verið fleygt fram að refsingar séu vægari í málum þar sem brotamaður er kona en
  þegar brotamaður er karlmaður.
  Ákvörðun refsinga er afar flókið lögfræðilegt viðfangsefni og fjöldamargir þættir koma þar til skoðunar. Í lagaumhverfi dagsins í dag gerir löggjafinn ráð fyrir því að dómstólum sé veitt svigrúm til ákvörðun refsingar innan ákveðinna lögmæltra refsimarka, almennra og sérstakra marka. Er það eins konar millileið frá því sem tíðkast hafði í gegnum tíðina. Í lögum þjóðveldisins og víðar tíðkaðist að binda tiltekna refsingu við tiltekna brotategund og var þá ekkert tillit tekið til persónulegra haga né annarra aðstæðna brotamanns. Verkaskipting löggjafa og dómstóla hvað ákvörðun tímalengdar refsingar varðar getur verið með mismunandi hætti. Í lögum þjóðveldisins og víðar tíðkaðist að binda tiltekna refsingu við hvert brot og var þá ekkert tilliti tekið til aðstæðna brotamanns né annarra aðstæðna. Þá ríkti einnig það fyrirkomulag í íslenskum rétti á síðari hluta miðalda og allt fram á 19. öld að veita dómstólum óheft vald til ákvörðun refsingar ásamt valdi til að velja þá brotategund sem á við hverju sinni. Í flestum refsiákvæðum er gert ráð fyrir tilteknu hámarki og lágmarki en dómara falið að ákvarða tímalengd refsingar innan þeirra marka, sem kölluð hafa verið refsimörk í daglegu tali. Allt frá því sú stefna sem ríkir í dag fór að þróast í byrjun 19. aldar hefur svigrúm dómstóla aukist með rýmri refsimörkum og afnámi lágmarksákvæða. Vald dómstóla til ákvörðun refsingar og rökstuðningur þeirra fyrir ákveðinni refsihæð í hverju tilviki fyrir sig getur sætt gagnrýni og er mikilvægt í því ljósi að skoða hann nánar. Mat þeirra verður ávallt að vera byggt á réttarreglum og málefnalegum sjónarmiðum. Efni ritgerðar þessarar er að skoða öll þau sjónarmið er til skoðunar koma í Hæstaréttardómum þar sem konur eru brotamenn, með sérstaka áherslu á ofbeldisbrot, og bera þau saman við sambærilega dóma þar sem karlmaður er brotamaður. Reynt verður að komast að niðurstöðu um það hvort svipaðra sjónarmiða gætir í ákvörðun dómara til refsingar og ef ekki hvaða sjónarmið það eru sem frekar er litið til þegar öðru kyninu er ákvörðuð refsing umfram hitt. Þrátt fyrir að þónokkuð hafi verið skrifað af íslenskum fræðimönnum um ákvörðun refsinga og að framkvæmdar hafi verið nokkuð umfangsmiklar rannsóknir á þessu sviði þá hefur ekkert verið skrifað sérstaklega um mismunandi beitingu refsiakvörðunarástæðna eftir kyni brotamanns. Eins hefur mikið verið ritað, aðallega af erlendum fræðimönnum á sviði kvennaréttar, um stöðu kvenna í refsivörslukerfinu. Hins vegar hafa skrif fræðimanna hér á landi nær eingöngu beinst að stöðu kvenna sem þolendur afbrota en ekki um stöðu þeirra sem gerendur. Þá liggur einnig fyrir sú staðreynd að hlutfall kvenna sem brotamenn er töluvert lægri en hjá karlmönnum og í fámennu samfélagi eins og á Íslandi er ekki um marga dóma að ræða. Konur hafa til dæmis ávallt verið fáar í íslenskum fangelsum og fram til ársins 2001 var hlutfall kvenna af fangafjölda undir 5%. Hlutfallið hefur hækkað lítillega á síðustu árum en þó ekki mikið og telst það svipað og í öðrum Evrópulöndu. Það er markmið ritgerðar þessarar að kanna hvort kyn brotamanns sé eitt af þeim sjónarmiðum sem áhrif hafi á refsihæð og hvort sú fullyrðing að ákvörðuð refsing séu vægari, þegar brotamaður er kona, eigi við rök að styðjast. Nánar tiltekið, er það markmið ritgerðar þessarar að kanna hvort kyn brotamanns sé í raun beitt sem sjálfstæðri ólögmæltri refsiákvörðunarástæðu eða hvort kyn hafi áhrif á beitingu hinna almennt viðurkenndu refsiákvörðunarástæðna. Í þeim tilgangi er nauðsynlegt að fjalla almennt um hugtakið refsingu, þær réttarreglur sem til greina koma við ákvörðun refsingar og loks framkvæma rannsókn á Hæstaréttardómum þar sem konur hafa verið dæmdar til refsingar, með sérstaka áherslu á ofbeldisbrot, og bera ákvörðun refsingar í þeim málum við ákvörðun refsingar í sambærilegum málum þar sem karlmenn eru brotamenn.
  Ritgerð þessi er byggð upp með þeim hætti að í fyrstu köflum hennar verður farið yfir hugtakið refsing og réttarreglur um markmið og ákvörðun refsinga. Kjarninn í ritgerðinni felst í rannsókn þar sem skoðuð verður ákvörðun tímalengdar refsingar miðað við fangelsisvist og þau sjónarmið sem þar ráða ferðinni. Skoðaðir verða dómar í alvarlegum ofbeldisbrotum þar sem kona er brotamaður og reynt að bera þau sjónarmið um ákvörðun tímalengdar refsingar sem réðu ferðinni hverju sinni við sambærilega dóma þar sem karlmaður hefur hlotið refsingu. Þá verða einnig skoðaðir nokkrir dómar í öðrum brotaflokkun í almennri umfjöllun.
  Samhengisins vegna hefst hver kafli á almennri umfjöllun um þá brotategund sem verið er að skoða hverju sinni, að undanskildum 8. kafla þar sem farið verður yfir ákvörðun refsingar í öðrum brotaflokkum- og tegundum. Höfundur telur ekki ástæðu til að fara þar eins ítarlega í hvert brot fyrir sig. Í lokaköflum ritgerðarinnar verða niðurstöður og helstu ályktanir dregnar saman.

Samþykkt: 
 • 26.1.2009
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3112


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
HeidarRitgerd_fixed.pdf526.92 kBLokaðurHeildartextiPDF