Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3120
Bakgrunnur: Offita og ofþyngd er vaxandi heilbrigðisvandamál í heiminum í dag og bendir margt til að Ísland sé engin undantekning þar á. Upplýsingar um þyngdarstuðul eldri Íslendinga, sem búa í heimahúsum, eru hins vegar af skornum skammti og takmarkast við höfuðborgarsvæðið. Tilgangur þessarar rannsóknar var því að rannsaka þyngdarstuðul eldri Íslendinga, sem búa heima, í dreifbýli og þéttbýli á Norðurlandi. Aðferð: Þátttakendur voru valdir með slembiúrtöku úr einu þéttbýlissveitarfélagi og tveimur dreifbýlissveitarfélögum á Norðurlandi. Skilyrði fyrir þátttöku voru: a) búsettir í heimahúsum, b) a.m.k. 65 ára gamlir, c) hæfir til samskipta í gegnum síma. Alls tóku 186 þátt í rannsókninni, þar af voru 89 (47,8%) konur, 97 (52,2%) karlar, 118 (63,4%) úr þéttbýli, 68 (36,6%) úr dreifbýli, 114 (61,3%) voru á aldrinum 65–74 ára og 72 (38,7%) á aldrinum 75–88 ára. Þátttakendur svöruðu spurningum um hæð og þyngd, þyngdarstuðull var reiknaður út og þátttakendur flokkaðir í undirþyngd, kjörþyngd, ofþyngd og offitu samkvæmt leiðbeiningum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Þyngdar-stuðulsbreytum var lýst með meðaltölum og staðalfráviki (M ± SD) og skýrt var frá fjölda og prósentum einstaklinga í mismunandi þyngdarstuðuls¬flokkum. Ályktunartölfræði var notuð til að bera saman þyngdarstuðla (t-próf óháðra úrtaka) og þyngdarstuðulsflokka (kí-kvaðrat próf) eftir aldursflokki, kyni og búsetu þátttakenda. Marktektarmörk voru sett við p < 0,05.
Niðurstöður: Þyngdarstuðull 65–88 ára Norðlendinga, sem búa heima, var 26,7 ± 13,0 kg/m2. Í undirþyngd flokkuðust 2 (1,1%), í kjörþyngd 55 (29,6%), í ofþyngd 92 (49,5%) og offitu 33 (17,7%). Þeir sem voru á aldrinum 65–74 ára (27,8 ± 3,76 kg/m2) voru með hærri þyngdarstuðul (p < 0,0001) en þeir sem voru í aldurshópi 75–88 ára (24,9 ± 2,98 kg/m2). Hins vegar reyndist hvorki marktækur munur á þyngdar¬stuðlum kvenna og karla (p = 0,2) né þyngdarstuðlum eldra fólks í dreifbýli og þéttbýli. Ályktun: Huga þarf nánar að þyngdarstuðli eldri Íslendinga þar sem einungis þriðjungur þeirra sem búa heima telst vera í kjörþyngd en meirihluti of þungir eða of feitir. Gera þarf ráð fyrir að ofþyngdarvandamálið geti aukist í elsta aldurshópnum á næstu árum. Hjúkrunarfræðingar geta verið í lykilstöðu í fræðslu- og forvarnarstarfi til að koma í veg fyrir og snúa við þróun ofþyngdar og offitu í þessum aldurshópi.
Lykilhugtök: Þyngdarstuðull (Body Mass Index), öldrun, kyn, dreifbýli, þéttbýli, búseta í heimahúsi, Ísland, hjúkrun.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BMI.pdf | 1.04 MB | Opinn | Þyngdarstuðull 65–88 ára einstaklinga á Norðurlandi | Skoða/Opna |