Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31220
Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt: Annars vegar að athuga hvernig skilningur íslenskra barna á tíu ólíkum setningagerðum þróast eftir aldri og hins vegar hvaða hlutverki fallmörkun gegnir í því sambandi. Þá er átt við hvort skilningur þátttakenda var betri á setningagerðum þar sem þeir gátu stuðst við sýnilega fallmörkun. Eins var athugað hvort marktækur kynjamunur kæmi fram í setningaskilningi eftir því hvort sýnileg fallmörkun var til staðar í setningunum eða ekki. Hér er talað um sýnilega fallmörkun ef orð hefur mismunandi fallmyndir í öllum föllum en orð þar sem samfall verður í einhverjum beygingarmyndum er án sýnilegrar fallmörkunar. Samfall verður í beygingarmyndum orða þegar orð er eins í einhverjum föllum, þ.e. nefnifalli, þolfalli, þágufalli eða eignarfalli. Til að athuga þetta var Setningafræðipróf Sigríðar Magnúsdóttur og Sigríðar Arndísar Þórðardóttur lagt fyrir þátttakendur (n = 119) sem voru eintyngd, íslensk börn án greindra raskana. Þátttakendur voru börn á aldrinum fjögurra til sjö ára valin með hentugleika. Leggja þurfti prófið tvisvar sinnum fyrir börnin, einu sinni með sýnilegri fallmörkun í setningum og einu sinni án sýnilegrar fallmörkunar. Í prófhlutanum án sýnilegrar fallmörkunar voru mannanöfnin Þór og Sif notuð en þau eru eins í öllum föllum nema eignarfalli (ef. Þórs og ef. Sifjar).
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að stígandi er í heildarmeðaltali þátttakenda eftir aldri, bæði í setningum með og án sýnilegrar fallmörkunar. Eftir því sem börnin verða eldri gengur þeim betur að skilja setningagerðirnar sem prófaðar voru. Á heildina litið gekk þátttakendum betur að skilja allar setningagerðirnar þegar sýnileg fallmörkun var til staðar og kom fram marktækur munur í öllum aldurshópum. Ekki kom fram tölfræðilega marktækur munur á milli kynjanna, þ.e. á frammistöðu drengja og stúlkna, í setningagerðum með sýnilegri fallmörkun. Hann var hins vegar til staðar í yngsta aldurshópnum í setningagerðum án sýnilegrar fallmörkunar þar sem stúlkur stóðu sig betur en drengir. Að lokum má nefna að börnin skildu best setningagerðir sem féllu að grundvallarorðaröð íslensks máls (germynd, spurnarsetningar með frumlagseyðu og frumlagsklofningssetningar) en þau skildu ekki eins vel setningar með breyttri orðaröð. Í setningum með sýnilegri fallmörkun var mestur skilningur á nýju þolmyndinni eða nýju setningagerðinni svokölluðu.
The main objective of this study was divided into two parts: To examine how Icelandic children’s comprehension of ten different syntactic structures develops with age and how it is affected by case marking. It refers to whether the participants understanding was better in syntactic structures where they could rely on overt case marking. It was also investigated whether a significant difference between the genders was identified in the sentence comprehension, depending on whether or not there was overt case marking in the sentences. We refer to overt case marking where there are different forms for different cases (for nominative, accusative, dative and genitive) but in the instances of case syncretism (i.e. identical forms for different cases) we will refer to it as without overt case marking. To examine this Dr. Sigríður Magnúsdóttir’s and Sigríður Arndís Þórðardóttir’s Syntax Test was administered to the participants (n = 119) that were monolingual Icelandic children with no diagnosed disorders. Participants were children aged four to seven selected by convenience. The test was administered twice to the children, once with overt case marking and once without overt case marking. In the test section which was without overt case marking the proper names Þór and Sif were used because they are identical in all cases except in the genitive, singular.
The main results of the study were that the average overall score of participants by age, both in sentences with and without overt case marking, is increasing. As the children grow older, they are better able to understand the sentences that were tested. Overall, participants comprehension of all the syntactic structures was better when overt case marking was present, there was a statistically significant difference in all age groups. There was no statistical significant difference between boys and girls in comprehension of sentences with or without overt case marking, except in one instance i.e. the youngest children’s understanding of sentences without overt case marking where girls did better than boys. At last, the children’s comprehension was better in sentence types with basic Icelandic word order (in active sentences, interrogatives with subject gap and subject cleft sentences) than in sentences with moved constituents. However, in sentences with overt case marking, the best comprehension was in the new passive sentences.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hólmfríður.pdf | 2,69 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.jpg | 1,79 MB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |