Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31255
Á síðustu áratugum hafa orðið breytingar á fjölskylduforminu. Breytt fjölskylduform hefur meðal annars haft það í för með sér að sum börn alast ekki upp hjá báðum kynforeldrum sínum, til dæmis vegna þess að hjúskapur eða sambúð foreldra lýkur eða vegna þess að þau hafa aldrei verið saman. Samhliða þessari þróun hefur farið fram umræða um mikilvægi þess að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á uppeldi barna sinna óháð fjölskyldustöðu. Endurskoðun barnalaga hefur því að miklu leyti miðað að því að skoða hvaða reglur um samband barna og foreldra, sem ekki búa saman, eru líklegastar til að þjóna sem best hagsmunum barnsins. Með barnalögum nr. 20/1992 var lögfest heimild foreldra til að semja um að fara sameiginlega með forsjá barns eftir skilnað eða sambúðarslit en fyrir þann tíma var sameiginleg forsjá foreldra sem bjuggu ekki saman útilokuð. Með breytingarlögum nr. 69/2006 var sameiginleg forsjá foreldra gerð að meginreglu við skilnað og sambúðarslit. Heimild dómara til að dæma foreldra til að fara sameiginlega með forsjá barns var lögfest með breytingarlögum nr. 61/2012. Heimildin var umdeild þegar hún var lögfest og er í ritgerðinni skoðað hvernig henni hefur verið beitt í dómaframkvæmd hér á landi. Í ritgerðinni er einnig gerð grein fyrir helstu sjónarmiðum sem dómara ber að líta til í forsjármálum ásamt því að fjallað er um þau viðbótarsjónarmið sem koma til álita við að dæma sameiginlega forsjá. Heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá er að finna í 3. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 og er hún eitt helsta viðfangsefni þessarar ritgerðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Reynslan af því að dæma sameiginlega forsjá.pdf | 1,1 MB | Lokaður til...05.10.2050 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing Skemman.pdf | 158,33 kB | Lokaður | Yfirlýsing |