Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3127
Fátækt er vaxandi vandamál um allan heim bæði í þróunarlöndum og hinum Vestræna heimi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða áhrif slæms fjárhags fjölskyldunnar á líkamlega heilsu nemenda í 10. bekk grunnskóla á Íslandi. Rannsóknir hafa sýnt að sterkt samband er á milli lágrar félagshagfræðilegrar stöðu og verri heilsu barna og unglinga, bæði líkamlegrar og andlegrar. Sú líkamlega vanheilsa sem getur verið fylgifiskur slæmrar fjárhagslegrar stöðu er meiri neysla óholls fæðis, hærri tíðni reykinga, verri tannheilsa og hreyfingarleysi.
Rannsóknaraðferðin var megindleg og byggði á niðurstöðum spurningalista úr rannsókninni HBSC heilsa og lífskjör skólanema sem lögð var fyrir í 6., 8. og 10.bekk grunnskóla um allan heim árið 2006. Rannsakendur notuðust við svör helmings 10. bekkjar nemenda á landinu öllu sem voru 1921 nemandi. Notast var við spurninguna “hversu gott telur þú fjölskyldu þína hafa það fjárhagslega?” og sú spurning síðan notuð sem aðal breyta og tengd við hinar ýmsu spurningar sem tengdust heilsu.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að hægt var að tengja slæmar venjur nemendanna eins og neyslu óholls fæðis, reykingar, hreyfingarleysi og verri tannheilsu við þá nemendur sem svöruðu því að fjárhagsstaða fjölskyldunnar væri slæm. Þessir þættir voru sambærilegir við erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið á fjárhagsstöðu og heilsu fólks.
Mikilvægt er að þeir aðilar sem koma að málefnum barna og unglinga séu vakandi fyrir þeim áhrifum sem slæm fjárhagsstaða fjölskyldunnar getur haft á líkamlega heilsu þessa hóps. Með því geta stjórnvöld og aðrir reynt betur til að koma til móts við þær fjölskyldur sem búa við slæma fjárhagsstöðu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Heildartexti_fixed.pdf | 637,68 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
HBSC_A_ listi_loka.pdf | 226,67 kB | Lokaður | HBSC spurningalisti A |