en English is Íslenska

Thesis University of Iceland > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/3156

Title: 
 • Title is in Icelandic Fyrirtækjamenning sem skýringarþáttur á árangri íslenskra fyrirtækja í útrás
Abstract: 
 • Abstract is in Icelandic

  Fyrirtækjamenning er flókið hugtak en skilningur á fyrirtækjamenningu skiptir hins vegar miklu máli í fyrirtækjarekstri. Enn sem komið er ríkir ekki mikil samstaða meðal fræðimanna um það hvernig ber að skilgreina fyrirtækjamenningu og því síður hvaða leiðir eru bestar til þess að leggja mat á hana. Flestir eru hins vegar sammála um áhrifamátt fyrirtækjamenningar enda hafa rannsóknir sýnt að fylgni er á milli ákveðinna einkenna í menningu fyrirtækja og árangurs.
  Síðla árs 2006 setti Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands á fót rannsóknarverkefni sem hefur það að markmiði að skoða árangur íslenskra fyrirtækja í útrás og greina ástæður hans. Fjórar megin tilgátur voru settar fram sem hugsanlegar skýringar. Heppileg fyrirtækjamenning er ein þessara tilgáta. Markmið þessa meistaraverkefnis er fjórþætt. Í fyrsta lagi að rannsaka og leggja mat á hvaða nálgun að hugtakinu fyrirtækjamenning er gagnleg til þess að prófa tilgátuna um fyrirtækjamenningu sem skýringarþátt á árangri íslenskra fyrirtækja í útrás. Í öðru lagi hvaða leiðir eru bestar til þess að leggja mat á menningarþáttinn svo gera megi grein fyrir skýringaþætti hans. Í þriðja lagi er tekið saman yfirlit um það sem fyrir liggur um fyrirtækjamenningu íslenskra útrásarfyrirtækja og ályktanir dregnar af því. Í fjórða lagi er sett fram tillaga að næstu skrefum í rannsóknum á fyrirtækjamenningu sem skýringarþætti á árangri íslenskra fyrirtækja.
  Megin niðurstöður rannsóknarinnar eru að mælt er með því að fyrirtækjamenning sé skilgreind út frá verklagi í rannsóknum á fyrirtækjamenningu sem skýringarþætti á árangri íslenskra útrásarfyrirtækja, en jafnframt að viðurkennt sé að hlutlægar mælingar muni aldrei ná yfir kjarna fyrirtækjamenningar. Mikilvægt sé að horfa á þá þætti sem hafa áhrif á fyrirtækjamenningu í samhengi í rannsóknunum. Ekki er til að mynd hægt að útiloka þjóðmenningu sem áhrifaþátt í samanburðarrannsóknum á fyrirtækjamenningu milli landa og dýpri þekking á einstökum þáttum fyrirtækjamenningar eins og breytingahæfni getur verið gagnleg. Niðurstöður rannsókna á fyrirtækjamenningu íslenskar útrásarfyrirtækja benda til þess að þar sé starfsmönnum veitt umboð til athafna og að breytingahæfni sé sá þáttur í fyrirtækjamenningu þeirra sem greini þau frá öðrum íslenskum fyrirtækjum.
  Það er lagt til að áfram verði notast við líkan Denison í rannsóknum á fyrirtækjamenningu íslenskra útrásarfyrirtækja en samhliða því verði gerðar eigindlegar rannsóknir með djúpviðtölum og vettvangskönnunum sem geti stutt tölfræðilegar niðurstöður rannsóknanna. Einnig er lagt til að gerð verði rannsókn á þjóðmenningu Íslendinga með mælitæki Hofstede VMS08 svo að leggja megi mat á hvaða þættir í þjóðmenningu okkar geti hugsanlega stuðlaða að árangir íslenskra fyrirtækja í útrás.

Accepted: 
 • Oct 20, 2008
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/3156


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
Fyrirt_fixed.pdf571.9 kBOpenHeildartextiPDFView/Open