Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/31654
„Við eigum aldrei að leyfa hatursorðræðu að verða lögmæt í okkar samfélagi.“ Þessi orð lét forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, falla við þingfund þann 18. júlí 2018 sem haldinn var í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands. Þessi orð forsætisráðherra eiga fullt erindi í dag þar sem ýmislegt virðist látið flakka á opinberum vettvangi án þess að hugsað sé fyllilega um afleiðingar þess. Á undanförnum árum hefur samfélag okkar breyst í veigamiklum atriðum, meðal annars með tilkomu samfélagsmiðla. Almenningur hefur nú fleiri tæki og tól en áður til að koma á framfæri skoðunum sínum og samfélagsmiðlar eru í raun hluti af fjölmiðlaflóru nútímans. Í dag má segja að athugasemdir við fréttir á netinu hafi tekið við af sveitasímum og kaffistofum, þar sem allt var látið flakka en átti ekki endilega að fara víðar.
Umræða sem fór fram í kjölfar þriggja hæstaréttardóma er féllu í desember 2017 um tjáningarfrelsi kveiktu hjá mér áhuga á hatursorðræðu og þeim álitamálum sem tengjast takmörkunum á tjáningarfrelsinu til verndar öðrum réttindum.
Á meðal allra mikilvægustu mannréttinda og einn af hornsteinum hvers lýðræðisþjóðfélags er óefað tjáningarfrelsið. En hvar liggja mörkin? Hvar liggja mörk þess að fá að tjá skoðun sína áður en slík skoðun er orðin að hatursorðræðu? Hvenær er rétt að takmarka tjáningarfrelsi vegna annarra mikilvægra mannréttinda? Hvort vegur þyngra rétturinn til að fá að segja það sem hverjum og einum finnst eða rétturinn til að vera laus undan hatursfullri orðræðu annarra?
Mikilvægt er að ákvæði stjórnarskrárinnar séu virt og að mannréttindi séu varin, sérstaklega gagnvart minnihlutahópum. Í fullkomnum heimi þyrfti ekki að vernda sérstaklega ákveðna hópa samfélagsins en rannsóknir sýna að þörfin fyrir slíka vernd er enn til staðar. Um 7% Norðmanna hafa til að mynda orðið fyrir hatursorðræðu á netinu og rannsóknir sýna enn fremur að einstaklingar af erlendum uppruna verða frekar fyrir slíkum árásum á netinu.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Hatursorðræða_BA_SES.pdf | 577.75 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
Yfirlýsing.pdf | 348.73 kB | Locked | Yfirlýsing |