Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31711
Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, er kveðið á um það að „börnum [skuli] tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Í ljósi 3. mgr. 76. gr. stjskr. eiga fötluð börn, líkt og ófötluð börn, rétt til þeirrar lagalegu verndar og umönnunar sem velferð þeirra krefst. Fjölmargt bendir þó til þess að raunveruleikinn hér á landi sé annar og í þessari ritgerð verður ákvæðið því tekið til ítarlegrar skoðunar. Leitast verður við að greina hvers eðlis ákvæðið er og hvert sé raunverulegt inntak þess. Markmið ritgerðarinnar er annars vegar að gera grein fyrir inntaki og þýðingu ákvæðis 3. mgr. 76. gr. stjskr. almennt og hins vegar að gera grein fyrir því hvernig löggjafanum hefur tekist til við að uppfylla skyldur sínar samkvæmt ákvæðinu gagnvart fötluðum börnum sérstaklega. Fötluð börn þurfa gjarnan, sökum viðkvæmrar stöðu sinnar, að treysta á stuðning annarra til að geta notið réttinda sinna og þarfnast í því skyni ríkrar verndar og umönnunar. Það er hins vegar ekki nóg. Til að rjúfa þann rótgróna skilning að eingöngu sé litið á fötluð börn sem viðkvæma einstaklinga, öðrum háða, þarf að tryggja þeim, líkt og öllum öðrum börnum, raunverulegan rétt til þátttöku.
Þrátt fyrir hinar ýmsu breytingar sem orðið hafa á löggjöf sem varðar réttarstöðu barna hér á landi undanfarin ár er það mat höfundar að slíkar breytingar hafi í mörgum tilfellum ekki náð því að tryggja sérstöðu fatlaðra barna með nægilega afdráttarlausum hætti. Markmið endurskoðunar stjórnarskrárákvæðanna árið 1995 var meðal annars að taka mið af þeirri þróun sem hafði átt sér stað á alþjóðavettvangi í mannréttindamálum. Það er niðurstaða höfundar að með setningu ákvæðis 3. mgr. 76. gr. stjskr. hafi slíku markmiði í raun aldrei verið náð. Fullt tilefni þykir til að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs að nýju stjórnarskrárákvæði um réttindi barna. Að því sögðu er slík aðgerð ein og sér ekki nægileg heldur er að mörgu að hyggja. Það að kveða á um mannréttindi barna sérstaklega í stjórnarskránni hefur í för með sér ýmsa kosti en líkt og sjá má af niðurstöðum ritgerðarinnar dugar það hins vegar afar skammt ef því er ekki fylgt eftir í framkvæmd.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
silja_stefansdottir.pdf | 940.54 kB | Lokaður til...01.04.2050 | Heildartexti | ||
yfirlysingSS.pdf | 443.84 kB | Lokaður | Yfirlýsing |