Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31724
Stjórnmálaþátttaka kvenna á Íslandi hefur vakið athygli utan landsteinanna og Íslendingar eru upp til hópa stoltir af þeim áföngum sem hafa náðst í þeim efnum. Konur hafa nýtt sér samtakamátt sinn hér á landi, meðal annars með kvennafrídögunum og með þátttöku í þverpólitískum kvenréttindahreyfingum. Þrátt fyrir það hefur ekki farið mikið fyrir þætti kvenna í stjórnmálum og félagshreyfingum í söguritun hérlendis. Til þess að fylla það skarð og gera grein fyrir starfi kvenna þarf nýja nálgun á ritun stjórnmálasögu.
Í þessari ritgerð verður fjallað um stjórnmálastarf kvenna innan Sósíalistaflokks Íslands og Kvenfélags sósíalista. Vegur tveggja kvenna sem störfuðu innan þessara samtaka og tóku þátt í stjórnmálastarfi frá því snemma á þriðja áratug 20. aldar verður sérstaklega kannaður. Á þeim tíma voru konur enn að kanna hvernig þær ættu að nýta sér nýfengin borgaraleg réttindi sín. Þetta voru nýjar konur með ný hlutverk í samfélagi sem var í hraðri þróun.
Femínískri hópævisögulegri aðferð verður beitt til að kanna ævi og störf Dýrleifar Árnadóttur (1897–1988) og Elínar Guðmundsdóttur (1912–2003). Þessar konur ólust upp við gjörólíkar aðstæður. Dýrleif var prestsdóttir og ein fárra kvenna sem hafði tækifæri til að setjast á skólabekk Menntaskólans en hún varð 17. kvenstúdentinn til að útskrifast þaðan. Elín var hins vegar dóttir verkafólks og ólst upp við bág kjör hjá einstæðri móður eftir að faðir hennar lést í sjóslysi og mörg systkini hennar voru send á sveitina.
Lífshlaup þeirra varð því verulega ólíkt. Dýrleif hélt áfram að mennta sig og var meðal fárra kvenna með háskólapróf á Íslandi á þriðja áratugnum en Elín vann fyrir sér sem ófaglærð verkakona. Dýrleif giftist menntamanni og flutti af landi brott en þau skildu sjö árum síðar. Um það leyti flutti hún aftur til Íslands og hellti sér í stjórnmálabaráttu. Síðar átti hún í sambandi við ungan verkamann sem starfaði líka innan Sósíalistaflokksins, Ásgeir Pétursson. Þau giftu sig árið 1948 og voru saman til æviloka. Þau voru barnlaus. Elín giftist Stefáni Ögmundssyni árið 1934 en var áberandi innan Sósíalistaflokksins. Hjónaband þeirra entist alla ævina og þau eignuðust fjórar dætur og eiga fjölmarga afkomendur.
Þrátt fyrir þennan mikla mun á ævi þeirra voru þær sameinaðar á sviði róttækrar stjórnmálabaráttu á þriðja áratugnum og fram eftir 20. öld. Þær tóku báðar þátt í starfi Kommúnistaflokks Íslands og síðar Sósíalistaflokksins. Þá störfuðu þær báðar innan fjölmargra kvenfélaga og kvenréttindafélaga í Reykjavík.
Líf þeirra og stjórnmálabarátta veitir innsýn í líf fjölmargra kvenna. Þær verða sem gluggar inn í fortíðina, sem varpa ljósi á þá möguleika sem konur höfðu til að lifa og öðlast frama á Íslandi frá byrjun 20. aldar til loka hennar.
Women’s participation in politics in Iceland has mostly been overlooked in our national historiography. This absence is largely due to the way political history has been written. A new perspective is needed to include the presence and contribution of women in Icelandic political history.
The political efforts undertaken by women within the Socialist Party of Iceland (1938–1968) and the Socialist Women’s Association (1939–1992) is examined in this thesis through the lives and work of two women who participated in both: Dýrleif Árnadóttir (1897–1988) and Elín Guðmundsdóttir (1912–2003).
Dýrleif Árnadóttir was an educated pastor’s daughter, whereas Elín Guðmundsdóttir was the daughter of working class parents who was unable to seek further education. Despite their different backgrounds and different courses in life, they were united by their participation in radical left-wing politics—beginning in the 1930s. Both women also participated in various Women’s Associations and Women’s Rights Associations.
The personal and political lives of these two women provide an insight into the circumstances of their fellow countrywomen; highlighting the opportunities for political participation and advancement—or lack thereof—for Icelandic women from the early 20th century until the millennium.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Nýjar konur Dýrleif Elín og Kvenfélag sósíalista.pdf | 1,46 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman yfirlýsing.pdf | 227,19 kB | Lokaður | Yfirlýsing |