Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31790
Kreppur koma í ýmsum myndum og valda miklum usla í efnahagslífi heimsins. Alþjóðgjaldeyrissjóðurinn (AGS) gegnir lykilhlutverki í að aðstoða ríki við að vinna sig út úr kreppum, til dæmis með lánveitingum og öðrum stuðningi. Sjóðurinn hefur verið gagnrýndur í gegnum tíðina, einkum fyrir kerfisbreytingar og fyrir að hafa stefnu sem hefur það að markmiði að henta öllum. AGS mótast einkum af hugmyndum stjórnmálamanna og fræðimanna. Ein af þeim hugmyndum sem AGS byggði starfsemi sína á undir lok 20. aldar var hin svokallaða Washingtonviska sem gekk í grófum dráttum út á markaðslausnir við úrlausn efnahagserfiðleika.Viðfangsefni ritgerðarinnar er að skoða hvort áhrif Washingtonviskunnar hafi verið til staðar í samstarfi AGS og Íslands og hver einkenni samstarfsins voru. Einnig verður sjónum beint að því hvernig sjóðurinn hefur breyst eftir hremmingarnar 2008, til dæmis með samanburði á aðstoð sjóðsins við Ísland og Argentínu. Enn fremur verða klassískar hugmyndir um viðbrögð við kreppum skoðaðar og það kannað hvernig þær hugmyndir falla að viðbrögðum stjórnvalda og AGS á Íslandi. Til að svara spurningunum er stuðst við rannsóknir og viðtöl við þrjá einstaklinga sem störfuðu náið með AGS á Íslandi. Niðurstaðan er að sjóðurinn hefur tekið breytingum og er byrjaður að starfa á annan hátt á Íslandi heldur en hann gerði fyrir kreppuna 2008. Það lýsir sér helst í því að sjóðurinn er byrjaður að leggja meiri áherslu á markmið en ekki leiðirnar til að ná markmiðum og hefur sett á dagskrá áður óviðkomandi mál líkt og ójöfnuð. Einnig samþykkti sjóðurinn og lagði áherslu á höft á frjálsu flæði fjármagns frá Íslandi, sem í gegnum tíðina hefur verið eitt af grunngildum sjóðsins. Ákveðin atriði innan stefnunnar sem helst hefur verið deilt um eru alls ekki jafn áberandi í áherslum sjóðsins eins og tíðkaðist áður í langan tíma. Áhrif Washingtonviskunnar í samstarfi Íslands og AGS voru því takmörkuð. Almennt var samstarf AGS og Íslands árangursríkt og var það byggt á mikilli samvinnu og trausti milli aðila. Aðkoma AGS á Íslandi og viðbrögð stjórnvalda við kreppu eru að miklu leyti í anda Keynes sem er nokkuð frábrugðið því sem hafði einkennt áherslur sjóðsins frá 10. áratug síðustu aldar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-Tómas Guðjónsson.pdf | 625,26 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf Tómas.pdf | 300,52 kB | Lokaður | Yfirlýsing |