Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31824
Verkefni þessu er ætlað að varpa ljósi á stöðu kvenna í sjávarútvegi á Íslandi og hvort einhverjir þættir séu til staðar í menningu samfélagsins, atvinnugreinarinnar eða fyrirtækjanna sem mögulega eru þess valdandi að konur eru síður í stjórnendastöðum þar en karlar. Eigindleg rannsókn fór fram á efninu og fól gagnaöflun í sér ellefu hálfstöðluð einstaklingsviðtöl við æðstu stjórnendur nokkurra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Helstu niðurstöður bentu til þess að menning innan atvinnugreinarinnar sé á heildina litið heldur karllæg en viðmælendur töldu það að miklu leyti stafa af skorti á kvenkyns fyrirmyndum í stjórnendastöðum og sjómennsku. Ákveðnir þættir í menningu atvinnugreinarinnar, fyrirtækjanna og samfélagsins geta haft áhrif á að konur eru síður í stjórnendastöðum en karlar en þessir þættir eiga að mestu leyti rót sína að rekja til hefða og gilda. Í atvinnugreininni er hefð fyrir því að karlmenn séu í lykilstöðum og eru oftar en ekki í forsvari fyrir fyrirtækin í fjölmiðlum. Sjómenn eru táknmyndir sjávarútvegs og eru nánast undantekningarlaust karlmenn. Viðmælendur voru margir þeirrar skoðunar að fyrirmyndir geta skipt máli og fjölgun kvenna í stjórnum og æðstu stöðum geta orðið til þess að fleiri konur sjái fyrir sér að hefja störf í sjávarútvegi. Þó væri áberandi að konur virtust ekki hafa áhuga á að sækja um stjórnendastöður en viðmælendur töldu þær hafa jöfn tækifæri og karlar til að vinna sig upp innan fyrirtækja. Hefðir og gildi samfélagsins og innan greinarinnar geta haft áhrif á að konur sækja ekki um stjórnendastöður í sjávarútvegi en rík hefð er fyrir því að karlar sinni almennt lykilstöðum í fyrirtækjum í atvinnugreininni á meðan konur sinna ekki eins ábyrgðarfullum störfum. Þær taka hins vegar frekar að sér að sinna börnum og heimili.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
yfirlýsing.pdf | 19,23 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
MS-kynjahalli í stjórnendastöðum í sjávarútvegi-Aldís Sveinsdóttir.pdf | 1,58 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |