Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/31828
Ör tækniþróun og máttur internetsins hafa umbylt heimi viðskipta á undanförnum áratugum. Upplýsingamiðlun og samskiptamöguleikar í krafti tækninnar hafa skapað ótal tækifæri til nýsköpunar, en þeim hafa líka fylgt nýjar áskoranir. Ein þessara nýjunga er gigghagkerfið - nýstárlegt viðskiptaumhverfi sem einkennist af samskiptum kaupenda og seljenda þjónustu í gegnum netvanga, með skömmum fyrirvara. Seljendurnir, sem nefndir eru netvangsstarfsmenn, fá greitt fyrir hvert verk í senn og eru í flestum tilvikum verktakar.
Þótt gigghagkerfið sé nýtt, þá hefur það nú þegar haft áhrif á atvinnuumhverfi í þeim ríkjum sem það er að finna. Rannsóknir benda til þess að það sé komið til að vera og muni halda áfram að vaxa á næstu árum. Gigghagkerfið hefur þó ekki enn náð skriði á Íslandi.
Markmið ritgerðarinnar var bæði að gera grein fyrir aðdraganda og umhverfi gigghagkerfisins og fjalla um það í samhengi við íslenskan vinnumarkað. Leitast var við að skýra hvers vegna gigghagkerfið væri ekki lengra komið á Íslandi og meta hvort aðstæður á Íslandi væru vænlegar fyrir netvangsfyrirtæki. Byggt var á rituðum heimildum og eigindlegri rannsókn, sem framkvæmd var sérstaklega til að leggja mat á íslenskar aðstæður. Tekin voru viðtöl við áhrifafólk á íslenskum vinnumarkaði, fulltrúa stéttarfélaga og hagsmunasamtaka.
Helsta niðurstaða rannsóknarinnar var sú að stéttarfélög hafa ekki gert ráðstafanir eða markað sér skýra stefnu gagnvart netvangsstörfum, aðra en þá að frekari rannsókna og undirbúningsvinnu sé þörf til að bregðast við hugsanlegum áskorunum sem slíkum störfum kunna að fylgja. Meðal slíkra áskorana er sú staðreynd að gigghagkerfið samræmist illa núverandi skipulagi á vinnumarkaði. Ályktað var að aðstæður á Íslandi stæðu ekki í vegi fyrir innreið gigghagkerfisins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ritgerd-gbg-bs2018-vfinal.pdf | 1.27 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
gbg-yfirlysing.pdf | 434.31 kB | Lokaður | Yfirlýsing |