Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31844
Rannsókn þessi fjallar um helgun í starfi og þá þætti í starfsumhverfinu sem stuðla að helgun starfsfólks. Rannsóknin var lögð fyrir starfsfólk Iceland Travel í þeim tilgangi að skoða hvaða lykilþætti helgunar má greina hjá starfsfólkinu, hvaða þættir í starfsumhverfinu styðja við helgun starfsfólks og hvaða vísbendingar má greina um Iceland Travel-skólann (IT-skólann) sem starfsauðlind.
Rannsókn þessi er tilviksrannsókn þar sem tilvikið er starfsfólk Iceland Travel. Notast var við blandaða aðferð (e. mixed methods) þar sem megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum var beitt. Stuðst var við UWES-spurningalistann sem er hvað mest notaður þegar rýnt er í helgun starfsmanna. Að auki var spurt um þætti í vinnuumhverfinu sem eiga að styðja við helgun og kallast starfsauðlindir. Stuðst var við spurningalista QEEW og sneru þær spurningar að endurgjöf á frammistöðu, stuðningi frá samstarfsfélögum og stuðningi frá yfirmanni, sjálfstæði í starfi og tækifæri til náms. Auk þess var spurt um IT-skólann, sem er miðpunktur alls fræðslustarfs og er tilgangur hans að efla hæfni og færni starfsfólks. Þar að auki voru tekin þrjú viðtöl til þess að fá betri innsýn í viðhorf stjórnenda til helgunar og IT-skólans. Hjá Iceland Travel starfa um 200 manns og var spurningalistinn lagður fyrir alls 192 starfsmenn. Af þeim svöruðu 116. Svarhlutfallið var því 60%.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að helgun starfsmanna mælist almennt jákvæð varðandi lykilþætti helgunar. Þær starfsauðlindir sem styðja helst við helgun eru stuðningur samstarfsfélaga og sjálfstæði í starfi. Sú starfsauðlind sem sýnir sterkustu tengslin við helgun er tækifæri til náms. Vísbendingar sem greina má um IT-skólann sem starfsauðlind eru að meirihluti þátttakenda telur hann efla færni, stuðla að aukinni starfsánægju og efla félagsleg tengsl. Þá mældist jákvæð fylgni á milli helgunar og IT-skólans þegar horft var til færni og starfsánægju. Það gefur ákveðna hugmynd um það að þeir aðilar sem nýta sér IT-skólann upplifa helgun í starfi. Niðurstöður varpa ljósi á rannsóknarefnið og veita innsýn í mikilvægi þess að leggja áherslu á helgun í starfi með ýmsum starfsauðlindum, allra helst tækifærum til vinnustaðanáms.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ásdís Guðmundsdóttir.pdf | 1.41 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
skemman - yfirlýsing.pdf | 46.67 kB | Lokaður | Yfirlýsing |