Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31849
Bakgrunnur: Hægðatregða hjá börnum er algengt vandamál í heilbrigðiskerfinu um allan heim og henni fylgir bæði álag á heilbrigðiskerfið og kostnaður. Um 95% barna sem eru með hægðatregðu þjást af starfrænni hægðatregðu og er henni lýst sem alvarlegu heilsufarsvandamáli hjá börnum sem hefur veruleg áhrif á líf bæði barnanna og fjölskyldna þeirra. Til að meðferðin sé sem árangursríkust er mikilvægt að hefja hana sem fyrst eftir að barnið þróar með sér hægðatregðu. Meðferðin þarf að fela í sér mikinn stuðning og eftirfylgd, bæði við barn og fjölskyldu þess, ásamt langvarandi lyfjameðferð. Á Barnaspítala Hringsins (BH) hefur verið rannsakað hvernig foreldrar, bæði bráð- og langveikra barna, upplifa stuðning frá hjúkrunarfræðingum í formi stuttra meðferðarsamræðna (SMS), byggða á Calgary- fjölskyldumats- og meðferðarlíkaninu.
Markmið: (i) Megintilgangur þessa kerfisbundna fræðilega yfirlits (KFY) var að samþætta rannsóknir sem gerðar hafa verið á árangri af hjúkrunarstýrðri þjónustu (HSÞ) fyrir börn með starfræna hægðatregðu og (ii) að skoða hvaða meðferðum hefur verið lýst í HSÞ fyrir börn og unglinga með starfræna hægðatregðu. Að auki (iii) var annar tilgangur yfirlitsins að skoða íslenskar rannsóknir á upplifuðum stuðningi foreldra langveikra og bráðveikra barna eftir SMS, byggðar á Calgary- fjölskyldumats- og meðferðarlíkaninu, og draga út frá þeim niðurstöðum ályktun um hvort slík meðferð gæti hentað við þjónustu barna með starfræna hægðatregðu.
Aðferð: Rannsóknarsnið: Byggist á aðferðafræði KFY og nær yfir megindlegar rannsóknir. Stuðst var við leiðbeiningar frá Joanna Briggs stofnuninni (JBI Reviewers‘s Manual, 2017) við gerð yfirlitsins og PRISMA yfirlýsingin var notuð í uppsetningu ritgerðar og framsetningu á leitarniðurstöðum. Leitað var í gagnagrunnunum Pubmed og CINAHL að birtum greinum frá 1. janúar 2003 til 1. febrúar 2018. Gæði rannsókna voru metin samkvæmt MAStARI viðmiðum frá Joanna Briggs stofnuninni. Notast var við „matrix“ til að lýsa þeim greinum sem voru með í yfirlitinu og til að samþætta niðurstöður með lýsandi frásögn.
Niðurstöður: Fimm rannsóknargreinar voru með í fyrri hluta KFY þar sem yfirlit um árangur af HSÞ var kynnt ásamt því að meðferðarinntaki þjónustunnar var lýst. Niðurstöðurnar gefa til kynna að árangur af HSÞ við starfrænni hægðatregðu barna sé góður og ekki síðri en í læknisstýrðri þjónustu (LSÞ). Skipulögð sértæk þjónustuform, þar sem meðferðarinntakið samanstendur af upplýsingasöfnun og líkamsmati, ásamt stuðningi í formi fræðslu, gerðar meðferðarplans og markvissrar eftirfylgdar til að stuðla að meðferðarheldni, virðist vera lykillinn að árangri. Í síðari hluta KFY voru 5 rannsóknargreinar með í yfirliti um hvernig foreldrar á BH, sem fengu SMS frá hjúkrunarfræðingi, upplifðu stuðning. Í fjórum af þeim rannsóknum var marktækur munur á upplifuðum stuðning fyrir og eftir meðferð. Í tveimur rannsóknanna voru það mæðurnar sem upplifðu marktækt meiri stuðning, í einni rannsókninni var það meginumönnunaraðilinn, sem í níu af tíu tilfellum voru mæður barnanna, og í einni voru það báðir foreldrarnir en í þeirri rannsókn var ekki gerður greinarmunur á mæðrum og feðrum.
Ályktun: Þrátt fyrir að starfræn hægðatregða hjá börnum sé algengt vandamál hefur hún lítið verið rannsökuð. Á Íslandi hafa leiðbeiningar um starfræna hægðatregðu ekki verið gefnar út og ættu framtíðarrannsóknir að beinast að orsökum, meðferðarúrræðum og árangri þeirra til þess að hægt sé að gera góðar leiðbeiningar byggðar á gagnreyndri þekkingu. Hjúkrunarfræðingar eru þeir heilbrigðisstarfsmenn sem líklega koma hvað mest að eftirfylgd ungra barna, s.s. í ungbarnavernd og í skólahjúkrun. Þeir eru í lykilhlutverki til að fyrirbyggja hægðatregðu (s.s. með fræðslu til foreldra í ungbarnavernd) og að skima fyrir vandamálinu og þurfa þeir því að búa yfir góðri þekkingu á hægðatregðu barna. HSÞ er fýsilegur kostur fyrir börn með starfræna hægðatregðu. Meðferðin þarf að fela í sér stuðning við bæði barnið og umönnunaraðila þess og hafa íslenskar rannsóknir bent til þess að SMS séu hjálplegar til að veita mæðrum stuðning.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
mslokaverkefnibspdfloka.pdf | 2,04 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Bergljót 111.pdf | 294,88 kB | Lokaður | Yfirlýsing |