Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/31900
Skortur á starfsánægju og kulnun í starfi er talin vera ein mesta ógn mönnunar innan heilbrigðisþjónustunnar. Báðir þessir þættir eru taldir hafa áhrif á öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu. Rannsóknir hafa sýnt að starfsánægja sé mikilvægur forspárþáttur um vellíðan og hamingju fólks og hefur áhrif á hollustu starfsmanna.
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hversu mikið þættirnir stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd og jafnrétti hafa áhrif á ánægju og stolt starfsmanna á Landspítala, meðal annars ljósmæðra. Enn fremur var tilgangurinn að kanna hvaða þættir hafa áhrif á ánægju og stolt að teknu tilliti til bakgrunnsþátta. Markmið rannsóknarinnar er að kynna hana fyrir stjórnendum Landspítala og að þeir geti nýtt niðurstöðurnar þegar fjármunum er forgangsraðað í þágu mannauðs.
Rannsóknarspurningar eru fjórar. Í fyrsta lagi hvaða þættir hafa áhrif á ánægju og stolt starfsmanna á Landspítala, í öðru lagi hvaða þáttum í starfsumhverfinu er mikilvægast að huga að til að auka ánægju og stolt starfsmanna á Landspítala, í þriðja lagi hvaða þættir hafa áhrif á ánægju og stolt fjölmennustu starfsstétta Landspítala, auk ljósmæðra, með tilliti til stéttarfélags og í fjórða lagi hvaða bakgrunnsbreytur hafa mest áhrif á ánægju og stolt starfsmanna á Landspítala.
Greining var gerð af Gallup á gagnasafni úr könnuninni Stofnun ársins 2017 fyrir Landspítala. Aðferðafræði var megindleg með lýsandi tölfræði, afturvirku sniði og aðhvarfsgreiningu. Gagnasafnið tók til 2896 einstaklinga sem voru starfsmenn Landspítala í marsmánuði 2017.
Niðurstöður sýndu að þeir þættir sem hafa mest áhrif á ánægju og stolt starfsmanna á Landspítala eru stjórnun, starfsandi og ímynd. Stjórnun hafði mest áhrif á ánægju og stolti allra starfsmanna, óháð stéttarfélagi, aldri, kyni, starfsaldri og stöðu í skipuriti.
Í ljósi niðurstaðna ætti að forgangsraða og auka gæði stjórnunar, bæta starfsanda og ímynd Landspítala til að halda í vel þjálfaða og hæfa starfsmenn, laða að nýja og gera Landspítala að eftirsóknarverðum vinnustað.
Lykilorð: Stofnun ársins, Landspítali, starfsánægja, stolt, stjórnun, ímynd, starfsandi, ljósmæður, heilbrigðisstarfsmenn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerð_Bára_okt.pdf | 1.13 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing_skemma.pdf | 302.2 kB | Lokaður | Yfirlýsing |