Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/31999
Samkvæmt spá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er talið að geðsjúkdómar verði eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál heimsins á komandi árum og geðlægð/þunglyndi (e. depressive disorder), verði megin orsök þess. Ísland er þar engin undantekning.
Á síðustu árum hefur skilningur aukist á eðli þeirra víðtæku áhrifa sem andleg veikindi hafa á líkamsstarfsemi einstaklingsins og lífsgæði hans. Með aukinni þekkingu á eðli mannshugans hafa vísindamenn í auknum mæli rannsakað meðferðir sem byggjast á öðru en lyfjagjöf og hefðbundinni sálfræðimeðferð eins og hugrækt á borð við Mindfulness Based Cognitive Therapy, MBCT sem er núvitundarhugleiðsla samþætt hugrænni atferlismeðferð.
Markmið þessa meistaraverkefnis var að taka kerfisbundið saman niðurstöður rannsókna á áhrifum MBCT gegn alvarlegri geðlægð og/eða geðlægðarlotum. Rannsóknarsniðið var kerfisbundin fræðileg samantekt á rannsóknum birtum á árunum 2000-2017.
Heimildarleitin skilaði alls 40 rannsóknum sem uppfylltu skilyrði leitarinnar. Allar rannsóknirnar sýndu framfarir frá grunnlínu. MBCT hóparnir sýndu í flestum tilfellum betri árangur en samanburðarhóparnir að tveimur hópum undanskildum, þar sem ekki var marktækur munur.
Niðurstöðurnar benda til þess að MBCT sé áhrifarík meðferð fyrir fólk á aldrinum 18-80 ára sem glímir við alvarlega geðlægð eða lotur geðlægðar.
Leiða má líkum að því að með reglulegri iðkun hugræktar eins og MBCT megi draga úr lotum geðlægðar, draga úr alvarleika lotanna og/eða lengja tímann á milli geðlægðarlota og þannig auka vellíðan og lífsgæði fólks sem glímir við alvarlega geðlægð.
Þótt niðurstöður rannsóknanna í þessari kerfisbundnu samantekt bendi til að MBCT geti verið áhrifarík meðferð í baráttu einstaklinga með geðlægð þá er þörf á frekari rannsóknum á þessu sviði.
Jafnframt er mikil þörf á frekari rannsóknum á áhrifum núvitundar þar sem niðurstöður þessarar samantektar benda til þess að aukin núvitundarhæfni sé einn af lykilþáttum í árangri þátttakendanna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhrif núvitundariðkunar MBCT, gegn geðlægð og lotum geðlægðar.pdf | 2.06 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
LOkaverkefni yfirlýsing.pdf | 167.88 kB | Lokaður | Yfirlýsing |