Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32026
Alþingi Íslendinga er löggjafarsamkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúar þjóðarinnar. Eitt þeirra meginhlutverka sem þinginu hefur verið falið að gegna er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, en í því felst að litið sé eftir með ráðherrum og stjórnarframkvæmd þeirra. Eftirlitshlutverk þingsins helgast af stöðu þess innan íslenskar stjórnskipunnar og þeirri staðreynd að ráðherrar starfa í umboði þingsins og bera jafnframt ábyrgð gagnvart því. Af ýmsum ástæðum getur þingið þó ekki tekið til skoðunar allan þann fjölda lagalegra ágreiningsmála sem árlega vakna um ákvarðanir stjórnvalda.
Gefst þinginu þannig ekki færi á að halda uppi skipulögðu eftirliti með störfum framkvæmdarvaldsins, almennri framkvæmd löggjafar í stjórnsýslunni, hversu vandaðir hinir ýmsu stjórnsýsluhættirnir séu og hvort réttaröryggis borgaranna sé nægilega gætt. Meðal annars af þessum sökum var embætti umboðsmanns Alþingis komið á fót, og því falið að viðhafa eftirlit í umboði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu.
Hlutverk umboðsmanns Alþingis er jafnan talið hafa á sér þrjár mismunandi hliðar. Fyrsta hliðin snýr að eftirliti með því hvort framkvæmd löggjafar sé í samræmi við vilja löggjafans. Önnur hliðin snýr að því að vinna að bættu réttaröryggi borgara sem eiga í samskiptum við stjórnvöld. Þriðja hliðin snýr að eftirliti með því hvort stjórnsýslan hér á landi fari fram í samræmi við „vandaða stjórnsýsluhætti“, en með því hugtaki hefur almennt verið átt við þær kröfur til starfshátta stjórnvalda, sem ekki eru beinlínis leiddar af skráðum eða óskráðum réttarreglum.
Í ritsmíð þessari verður leitast við að skoða réttargrundvöll og inntak þeirra yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sem ráðherrar búa yfir í krafti embættis síns og takmörk þeirra heimilda. Ekki síður verður könnuð sú athafnaskylda sem talin hefur verið hvíla á ráðherrum, á grundvelli þessara heimilda, hversu langt umrædd skylda nær, og afleiðingar þess þegar ráðherra gegnir ekki skyldunni að áliti umboðsmanns Alþingis. Áhersla verður lögð á að kanna túlkun yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra í álitum umboðsmanns, og hvernig hann hefur þannig í umboði Alþingis haft eftirlit með því að ráðherrar, sem æðstu handhafar framkvæmdarvalds hver á sínu málefnasviði, ræki það hlutverk sem leiðir af stöðu þeirra í íslenskri stjórnskipan gagnvart undirstofnunum og eftir atvikum sjálfstæðum stjórnvöldum.
Loks verður reynt að rýna í þýðingu þeirra helstu álita sem umboðsmaður Alþingis hefur látið
í ljós um þetta efni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Skúli Halldórsson.pdf | 414,86 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefnis - SH.pdf | 290,78 kB | Lokaður | Yfirlýsing |