Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32033
Fjölskyldufyrirtæki eru algengasta rekstrarform fyrirtækja í heiminum í dag. Rannsóknir sýna að innan við þriðjungur þeirra lifa af aðra kynslóð. Leiðtogahlutverk í fjölskyldufyrirtækjum er mikil áskorun þar sem þau eru einstök og mun flóknari en önnur fyrirtækjaform. Í þessari rannsókn er lýst mótun leiðtoga í íslensku rótgrónu fjölskyldufyrirtæki þar sem þriðja kynslóð fjölskyldunnar er við stjórn. Þessi rannsókn er einstök að því leyti að hún skoðar samspil nærsamfélags, menntunar, tengslanets og starfsreynslu við mótun leiðtoga.
Á Íslandi er sterk hefð fyrir þátttöku ungmenna í íþróttastarfi og störfum á vinnumarkaði samhliða skóla. Áhersla er á að viðkomandi standi sig vel í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur og sé sjálfstæður. Áður en leiðtogi rannsóknarinnar tók við fjölskyldufyrirtækinu starfaði hann í ólíkum fyrirtækjum, aflaði sér viðurkenndrar háskólamenntunar og var virkur í félagsstörfum. Frá unga aldri myndaði hann tengslanet og á sama tíma lærði hann að bera virðingu og umhyggju fyrir öðrum einstaklingum. Eftir arftakaskiptin hélt hann áfram að mótast í gegnum félagsstörf og samhliða því styrkti hann tengslanet sín enn frekar. Framvæmd var eigindleg rannsókn þar sem gögnin voru greind í anda grundaðrar kenningar. Tekin voru ítarleg viðtöl við fimm einstaklinga sem tengjast fyrirtækinu. Við vinnslu rannsóknar var jafnframt rætt við tvo sérfræðinga á Hagstofu Íslands til að glöggva sig betur á rekstrarformi fjölskyldufyrirtækja hér á landi.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna mikilvægi þess að mótun leiðtoga hefjist mjög snemma í íslensku samfélagi, í gegnum íþróttir, félagsstörf, menntun og starfsreynslu utan fjölskyldufyrirtækis, þar sem áhersla er á gott orðspor og myndun tengslaneta. Rannsóknin getur í framhaldi komið að góðum notum ef skoða á hvernig leiðtogar í öðrum fjölskyldufyrirtækjum hafa mótast á Íslandi. Jafnframt er mögulega hægt að nýta niðurstöður rannsóknarinnar til að undirbúa verðandi leiðtoga til forystu í fjölskyldufyrirtækjum á Íslandi. Þessi rannsókn felur í sér framlag til fræðasamfélagsins þar sem mótun leiðtoga í íslensku fjölskyldufyrirtæki hefur ekki verið rannsökuð áður.
Lykilorð: fjölskyldufyrirtæki, mótun leiðtoga, ytri reynsla, tengslanet, umhyggja.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Holmfridur_Sigurdardottir_MS_2019.pdf | 792.82 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing_hss45.pdf | 377.08 kB | Lokaður | Yfirlýsing |