is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32036

Titill: 
  • Skilyrði eignarhefðar samkvæmt 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í ritgerð þessari er fjallað um hefð sem stofnunarhátt eignarréttinda. Hefð er sjálfstæð eignarheimild og í ákveðnum tilvikum getur verið um að ræða að hún sé eina heimildin sem eignarréttur er reistur á. Hún getur jafnframt staðið við hlið annarra eignarheimilda, eins og samnings, og þegar svo háttar til getur hefð verið til stuðnings rökum fyrir því að eignarrétti sé til að dreifa og jafnvel aukinni réttarvernd hans. Tilgangur þeirrar rannsóknar sem liggur að baki rigerðinni er að kanna hvernig skilyrði eignarhefðar hafa þróast hjá dómstólum á síðastliðnum 30 árum. Höfuðárhersla er lögð á að rýna í dómaframkvæmd á þessu tímabili og leitast við að rannsaka hvort og þá hvernig dómstólar hafa þróað og mótað grundvallarskilyrði laganna um óslitið eignarhald, hefðartíma, huglæga afstöðu hefðandans og þýðingu fyrirfarandi samningssambands milli hefðanda og hefðarþola. Meginþungi ritgerðarinnar lýtur að hlutlægum grundvallarkröfum 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga um hefðartíma, kröfu um eignarhald og að það sé óslitið í skilningi greinarinnar. Gerð er grein fyrir sögulegum aðdraganda setningar hefðarlaga 1905 eftir að fjallað hefur verið með almennum hætti um eignarrétt og vernd eignarréttinda, aðild að eignarréttindum og eignaform. Þá er vikið að stofnunarhætti eignarréttinda, einkum með tilliti til hefðar. Fjallað er um helstu tilbrigði hefðar og hvaða eignarréttindi verða unnin fyrir hefð. Í því sambandi er lögð sérstök áhersla á fasteignir þar sem dómaframkvæmd hefur að meginstofni tekið til slíkra eigna. Einnig er fjallað stuttlega um réttarreglur um hefð í nágrannaríkjunum. Við greiningu dóma var haft í huga að hefðarlögin eru rúmlega 100 ára gömul, þau eru afar knöpp og innihalda einungis fáeinar meginreglur, svo og að orðfæri þeirra ber merki þess tíma sem þau voru sett. Meginniðurstaða ritgerðarinnar hvað fasteignir áhrærir er að engin grundvallarbreyting hafi orðið á afstöðu dómstóla til áskilnaðar 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga um óslitið eignarhald, sönnun og upphaf hefðarhalds á fyrrgreindu tímabili. Þá er það niðurstaða ritgerðarinnar að dómaframkvæmdin hafi leitt í ljós, við skýringu á hugtakinu óráðvandlegt atferli samkvæmt 2. mgr. 2. gr. hefðarlaga, að gáleysi standi hefð í vegi, en áður var fyrst og fremst litið til þess hvort hefðandi hefði haft vitneskju um betri rétt annars aðila, sem og hvort telja mætti mjög ámælisvert af honum að byggja eignarrétt á umráðum sínum. Loks var það niðurstaða rannsóknarinnar að þegar haft er í huga hið flókna viðskiptaumhverfi 21. aldar geti upptalning sú, sem um ræðir í 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga, engan veginn verið tæmandi um þær samningsskuldbindingar sem kveðið er á um í greininni.

Samþykkt: 
  • 4.1.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/32036


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Yfirlýsing.pdf296.33 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Ritgerð.lokaútgáfa.pdf833.89 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna