Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32061
Markmið þessarar rannsóknarritgerðar er að varpa ljósi á forystu og traust í starfsemi fjölskyldufyrirtækja í heilsugeiranum á Íslandi. Sýnt hefur verið fram á mikilvægi þessara þátta í fjölskyldufyrirtækjum og í heilsugeiranum erlendis en minna er vitað um þessa þætti samtvinnaða og í íslensku samhengi. Framkvæmd var eigindleg rannsókn til þess að skoða og skilja hvernig forystuhlutverk leiðtoga og fylgjenda birtast í starfsemi þeirra fyrirtækja sem rannsóknin tók til og voru þau mátuð við forystustíla sem algengir eru í fjölskyldufyrirtækjum í heiminum. Upplifun starfsfólks af trausti innan síns fyrirtækis, þróun þess og viðhaldi var einnig könnuð. Gagnaöflun fór fram með 14 hálfstöðluðum viðtölum sem tekin voru við starfsfólk og stjórnendur í fjórum fjölskyldufyrirtækjum í heilsugeiranum á Íslandi.
Rannsóknin leiddi í ljós að lítil aðgreining er á hlutverkum leiðtoga og fylgjenda í starfsemi fjölskyldufyrirtækjanna og yfirleitt vinnur allt starfsfólk á jafningjagrundvelli. Samskipti eru afar náin og tíð meðal alls starfsfólks og stjórnenda. Helstu forystustílar sem tengja má við þessar birtingarmyndir hlutverkanna eru því nútímalegir forystustílar sem leggja áherslu á valddreifingu og réttlæti, svo sem dreifð forysta og umbreytingarforysta. Hlutverkaspenna á þó til að myndast innan fyrirtækjanna, einkum þegar kemur að verkaskiptingu á milli fólks eða þeim mismunandi hlutverkum sem einn einstaklingur getur gegnt. Einnig kom í ljós að viðmælendur upplifðu traust sem eina helstu undirstöðu nær allrar starfsemi innan fjölskyldufyrirtækjanna. Vinnuandinn í fyrirtækjunum endurspeglaði viðhald trausts og þróun þess þar sem aukin samvera og góð samskipti ýttu undir traustari sambönd á milli fólks en baktal og óhreinskilni hafði skaðleg áhrif.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
ÍseyDísa-MSritgerð1pdf (1).pdf | 1.43 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing-ÍseyDísa.pdf | 399.64 kB | Lokaður | Yfirlýsing |