Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32073
Með vaxandi hlutverki framkvæmdavaldsins hefur meiri áhersla verið lögð á að aðgangur almennings að gögnum hins opinbera sé sjálfsagður réttur manna í lýðræðissamfélagi. Á nokkrum áratugum hefur upplýsingaréttur almennings farið úr því að vera sænsk jaðarhugmynd yfir í að vera talinn eitt af skilyrðum lýðræðislegra stjórnarhátta. Ríkjandi hugmyndir færa rök fyrir því að virk upplýsingalöggjöf auki gagnsæi, traust almennings og pólitíska þátttöku. Ekki síður er henni ætlað að gera almennum borgurum kleift að veita stjórnvöldum aðhald með beinum hætti og varpa ljósi á störf þeirra. Greinilega má merkja áhrif slíkra hugmynda á mótun íslenskra upplýsingalaga. Erlendar rannsóknir benda þó til þess að almennir borgarar notfæri sér þennan rétt í minna mæli en háleitar hugmyndir geri ráð fyrir, og frekar í öðrum tilgangi. Í ljósi þessa eru blaðamenn líklegri til að notfæra sér slíka löggjöf til að sinna aðhaldshlutverki, upplýsa um aðgerðir stjórnvalda og vekja athygli almennings á misferli. Mikilvægi þeirrar vinnu er undirstrikað í kenningum sem segja að umfjöllun fjölmiðla hafi veigamikil áhrif á dagskrá þjóðfélagsumræðunnar og hvað sé ofarlega í huga kjósenda hverju sinni. Þrátt fyrir að upplýsingalöggjöf fylgi alla jafna háleit markmið, virðist það hrjá þessa tegund löggjafar meira en flestar aðrar að miklu sé lofað en minna um efndir. Framkvæmd upplýsingalaga hefur lítið verið skoðuð á Íslandi og er hér reynt að stíga skref í þá átt. Upplýsingalögin voru skoðuð í gegnum upplifun blaðamanna af lögunum og framkvæmd þeirra, ásamt því að rætt var við sérfræðing á sviði upplýsingaréttar. Færa má sterk rök fyrir því að niðurstöðurnar gefi stjórnvöldum fullt tilefni til þess að endurskoða framkvæmd stjórnsýslunnar og viðmót hennar gagnvart þessum mikilvæga málaflokki.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
EidurThorArnason_BA.pdf | 449.86 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
EidurThorArnason-Skemman_yfirlysing.pdf | 186.58 kB | Lokaður | Yfirlýsing |