Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32082
Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar sem skall á árið 2007 leituðust menn við að finna orsök hennar. Bent hefur verið á fræðimanninn Hyman Minsky í þessu samhengi þar sem skýringar hans á göllum kapítalísks hagkerfis virðast eiga vel við um atburðina sem áttu sér stað í aðdraganda alþjóðlegu fjármálakreppunnar.
Í þessari ritgerð verður rýnt í hugmyndir Hymans Minskys og þær bornar saman við atburði sem áttu sér stað í nýliðinni fjármálakreppu. Fyrst verður gerð grein fyrir helstu kenningu hans, fjármálaóstöðugleikakenningunni (e. financial instability hypothesis) sem miðar af því að útskýra hvernig undirliggjandi óstöðugleiki er fylgifiskur kapítalísks hagkerfis sem ræðst af stigvaxandi skuldsetningu aðila á fjármálamarkaði. Í kjölfarið verður sett fram gagnrýni sem beinist að hugmyndum Minskys. Því næst verður farið yfir meginstarfsemi fjármálastofnana til að skapa grundvöll að skilningi á hlutverki þeirra í nýliðinni fjármálakreppu. Til þess að hægt sé að skoða heildarmynd alþjóðlegu fjármálakreppunnar verður í framhaldinu litið á tengsl hugmynda Minsky við nokkra lykilþætti sem lögðu grunninn að undirmálslánakreppunni (e. subprime crisis) í Bandaríkjunum.
Að því loknu verða hugmyndir Minskys bornar saman við undanfara fjármálakreppunnar á Íslandi sem náði hámarki árið 2008. Fjallað verður um rannsókn þar sem fjármögnun hjá fyrirtækjum sem voru kerfismikilvæg í fjármálakerfinu í aðdraganda hrunsins verða tekin fyrir. Skoðað verður hvernig vaxtaþekjur þessara fyrirtækja þróuðust á tímabilinu 2002-2010. Vaxtaþekjurnar gefa vísbendingar um hvernig fjármögnun hjá fyrirtækjunum skiptast á milli þeirra þriggja fjármögnunarleiða sem Minsky leggur fram í fjármálaóstöðugleikakenningu sinni. Kannað verður hversu stórt hlutfall fjármögnunar fellur í hvern flokk fyrir sig á tímabilinu og athugað hvort atburðarásin sem átti sér stað í fjármálakerfinu á Íslandi í aðdraganda fjármálahrunsins samræmist fjármálaóstöðugleikakenningu Minskys.
Niðurstöður þessarar rannsóknar má skoða með þeim fyrirvara að skortur var á aðgengi að fullnægjandi gögnum hjá öllum fyrirtækjunum á tímabilinu sem tekið var fyrir. Þó má draga ályktanir út frá rannsókninni sem gefa til kynna sambærileika í þróun fjármögnunarleiða þessara fyrirtækja við grunnþætti kenningarinnar um tilfærslu frá vogaðri fjármögnun til spákaupmennsku og Ponzi fjármögnunar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Samræmast kenningar Minskys alþjóðlegu fjármálakreppunni 2007-2008.pdf | 1.11 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing-Skemma.jpg | 2.15 MB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |