is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32144

Titill: 
 • Hagrænir hvatar stjórnvalda við innleiðingu vistvænna bifreiða
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Fjölbreytni orkugjafa á bílamarkaði hefur aukist með tilkomu rafbíla og annarra vistvænni ökutækja heldur en hefðbundnar bensín- og dísilbifreiðar. Frá árinu 2010 hefur útbreiðslan aukist alþjóðlega eftir að fjöldaframleiðsla hófst á rafbílum byggt á nýrri rafhlöðutækni með meiri afköst en áður. Á Íslandi hefur sala rafbíla aukist samfellt frá árinu 2011 eftir að hagrænir hvatar stjórnvalda fyrir vistvænar bifreiðar voru innleiddir. Þeir fólu meðal annars í sér undanþágu frá vörugjöldum við innflutning vistvænna bifreiða og afslátt af virðisaukaskatti. Stjórnvöld landa hafa beitt aðgerðum af þessum toga til að styðja við innleiðingu umhverfisvænni orkugjafa í vegasamgöngum og gera vistvæn ökutæki að samkeppnishæfari valkosti fyrir neytendur gagnvart mengandi bifreiðum sem nota jarðefnaeldsneyti. Hagrænir hvatar stjórnvalda eru af ýmsum toga, ýmist fjárhagslegir eða óbeinn stuðningur, og getur beiting þeirra haft mismunandi afleiðingar fyrir ólíka hópa samfélagsins. Parísarsáttmálinn og aðrar alþjóðlegar aðgerðaráætlanir kveða á um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum. Ísland er þátttakandi í sáttmálanum og samþykkti ríkisstjórn Íslands nýverið aðgerðaráætlun í loftslagsmálum fyrir árin 2018-2030. Þar er meðal annars lagt til að eftir árið 2030 verði nýskráningar bifreiða sem eingöngu nota jarðefnaeldsneyti óheimilar og stefnt yrði á kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Hlutfall rafmagns- og tengiltvinnbifreiða af nýskráðum bifreiðum á Íslandi hefur aukist hratt síðustu ár en þrátt fyrir það er hluti þeirra af heildarbílaflota Íslendinga aðeins um 2%. Einungis Norðmenn standa Íslendingum þar framar en þeir eru ótvíræðir leiðtogar rafbílavæðingarinnar á heimsvísu. Árið 2018 voru um 50% af nýskráðum bifreiðum í Noregi annaðhvort rafmagns- eða tengiltvinnbifreiðar. Þann árangur má helst rekja til umfangsmikilla hagrænna hvata fyrir vistvænar bifreiðar, samhliða fjárfestingu í innviðum fyrir nýja tækni, sem ná aftur til ársins 1990.
  Í ritgerðinni er fjallað um aðgerðir stjórnvalda til að styðja innleiðingu vistvænna ökutækja og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum. Útblástur bifreiða veldur samfélaginu neikvæðum ytri áhrifum og er skattlagður í flestum löndum. Flokka má aðgerðir stjórnvalda eftir þeim stýritækjum sem hægt er að beita og er skattakerfið er eitt af þeim. Árangur aðgerðanna er skoðaður út frá ýmsum viðmiðum líkt og skráningarfjölda vistvænna ökutækja, samdrætti í koltvísýringslosun, þjóðhagslegum áhrifum og kostnaði. Ýmsar hagfræðilegar kenningar lýsa því hvernig útbreiðsla tækninýjunga í samgöngum á sér stað í samfélögum. Hraði útbreiðslunnar er bæði háður eiginleikum einstaklinga sem tileinka sér nýja tækni og hvernig samspil markaðsþátttakenda setur þrýsting á regluverkið til að skapa grundvöll fyrir innleiðingu nýrrar tækni og gera hana sjálfbæra.
  Fjallað er um markmið stjórnvalda á Íslandi fyrir orkuskipti í samgöngum og er rakin þróun hagrænna hvata fyrir vistvænar bifreiðar til ársins 2011 þegar löggjöf um vörugjöld bifreiða var breytt. Við upphaf árs 2019 tóku í gildi ný lög um vörugjöld bifreiða sem leggur grundvöll að skattaumgjörð ökutækja og eldsneytis til framtíðar með áherslu á innleiðingu vistvænna fararkosta. Lagt er mat á þjóðhagsleg áhrif aðgerðanna sérstaklega í ljósi sérstöðu Íslands þegar kemur að hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum. Líftími bifreiða getur verið á annan tug ára og felur hröð innleiðing í sér meiri ábata til framtíðar.
  Til samanburðar er árangur í öðrum löndum skoðaður þar sem stjórnvöld hafa beitt hagrænum hvötum við innleiðingu vistvænna ökutækja. Í Noregi, Hollandi og Danmörku voru skattalegir hvatar innleiddir snemma í samanburði við önnur lönd. Eftir árið 2015 voru breytingar gerðar á umfangi þeirra í Hollandi og Danmörku með tilheyrandi áhrifum á nýskráningar vistvænna ökutækja. Í Noregi var hvötunum haldið óbreyttum og jókst fjöldi nýskráninga samfellt en í Danmörku var skattlagning jöfnuð á allar bifreiðar sem dró úr nýskráningum rafbíla en jók nýskráningar bensín- og dísilbifreiða. Hollendingar breyttu skattaumgjörð sinni á þann veg að eftir árið 2015 voru tengintvinnbifreiðar ekki lengur undanþægar vörugjöldum en kolefnishlutlausar bifreiðar, eins og rafbílar, voru það enn. Nýskráningar rafbíla jukust en nýskráningar tengiltvinnbifreiða snarlækkuðu. Af reynslu þjóðanna má álykta að beiting stjórnvalda á hagrænum hvötum er mikilvæg til að styðja við innleiðingu vistvænna ökutækja og að snemmbúið afnám þeirra getur haft miklar afleiðingar fyrir sölu slíkra bifreiða.

Samþykkt: 
 • 10.1.2019
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/32144


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefna - Gunnar Smári.pdf281.84 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Hagrænir hvatar og vistvænar bifreiðar - Gunnar Smári.pdf782.17 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna