Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32211
Á 18. öld voru dönsk áhrif á Íslandi meiri en áður hafði verið í íslensku samfélagi. Svo mikil voru áhrifin að á síðari hluta 18. aldar voru uppi hugmyndir um að taka upp dönsku á Íslandi og segja skilið við íslenskuna. Bjarni Jónsson rektor í Skálholti var m.a. þeirrar skoðunar. Í ritgerðinni er greint frá dönskum áhrifum innan stjórnsýslunnar og notkun dönsku sem embættismáls en einnig hvað það var sem hafði áhrif á að íslenska tungumálið lifði áfram innan stjórnsýslunnar þrátt fyrir dönsk áhrif.
Um leið og dönsk áhrif jukust á Íslandi var lögð meiri áhersla á notkun íslenskunnar. Íslenska var ótvírætt móðurmál Íslendinga en almenningur hafði þá almennt ekki kunnáttu á dönsku. Íslenskir menntamenn höfðu stundað málhreinsun íslenskunnar allt frá siðaskiptum og íslenska var það kirkjumál sem notað var. Rædd verða ýmis lagaboð danskra stjórnvalda hvað varðar notkun íslensku innan stjórnsýslunnar og þar með viðhorf Dana til íslensku. Hvers vegna fengum við að nota íslenskuna innan stjórnsýslunnar þegar danska var embættismál Norðmanna og Færeyinga?
Íslenskir amtmenn notuðu dönsku meira en aðrir embættismenn; jafnvel þó þeir væru íslenskir og ættu í samskiptum við aðra Íslendinga sem skrifuðu þeim á íslensku. Til að varpa ljósi á tungumál þessara samskipta verða athuguð bréfaskipti embættismanna á 18. öld; bréfabækur amtmanna og bréf sýslumanna og almennings til amtmanna ásamt bréfum til og frá Magnúsi Stephensen dómstjóra verða skoðuð.
Íslenskir embættismenn 18. aldar notuðu flestir bæði tungumálin; danskan var „vinnumál“ þeirra en íslenskan móðurmálið. Á fyrri hluta 19. aldar talaði Konráð Gíslason um embættismenn sem notuðu dönsku sem „þjóðleysingja“, eins og þeir gætu ekki verið föðurlandsvinir vegna dönskunotkunarinnar. Viðhorf Eggerts Ólafssonar og Magnúsar Stephensen til dönsku á 18. öld og afstaða þeirra til stjórnvalda er m.a. skoðuð. Gátu mennta- og embættismenn 18. aldar ekki verið föðurlandsvinir ef þeir notuðu dönsku mikið?
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Embættismál Íslendinga á 18. öld.pdf | 762,42 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsingin Skemman undirritað.pdf | 292,02 kB | Lokaður | Yfirlýsing |
Athugsemd: Sagnfræði- og heimspekideild hefur samþykkt lokaðan aðgang að þessari ritgerð í tvö ár.