Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/32229
Árið 1976 var leikverkið Camelamos naquerar (sem úr rómaní gæti verið þýtt sem „við viljum fá orðið“) eftir José Heredia Maya frumflutt í Granada á Spáni. Heredia Maya var fyrstur spænskra sígauna til að gefa út bókmenntir og er Camelamos naquerar líklegast hans þekktasta verk. Í þessari ritgerð, sem er unnin til fullnustu B.A.-gráðu í spænsku við Háskóla Íslands, er sögulegt samhengi leikverksins skoðað og áhrif þess á spænskt samfélag. Í fyrsta kafla ritgerðarinnar er tekin fyrir saga spænskra sígauna frá fyrstu heimildum um komu þeirra á Íberíuskagann snemma á 15. öld og fram til nútímans.Samtímaheimildir sem tengjast sígaunum koma ekki frá þeim sjálfum heldur eru helst útgefnar af yfirvöldum, lagasetningar og tilskipanir. Því er lögð áhersla á að lýsa viðhorfi yfirvalda á Spáni gagnvart sígaunum og þróun þess. Í öðrum kafla er stuttlega rædd þróun bókmennta rómafólks í heiminum og mismunandi skilgreiningum á því hugtaki. Þriðji og stærsti kafli ritgerðarinnar er helgaður greiningu á leikverkinu sjálfu. Camelamos naquerar er frekar óhefðbundið leikverk þar sem blandað er saman upplestri á sögulegum textum, flutningi á ljóðum Heredia Maya og flamenco dansi og söng. Skoðuð eru áhrif epísks leikhúss Brechts og spænsku félagsljóðlistarinnar (sp. poesía social) sem greinanleg eru í verkinu, og þannig reynt að greina hvaða skilaboðum höfundur vill koma á framfæri. Verkið kom út á áhugaverðum tíma í spænskri sögu, þegar landið var að færast undan einræðisstjórn og lýðræðið að taka við. Í lok ritgerðarinnar eru viðbrögð við verkinu og áhrif þess á spænskt samfélag á þessum tíma skoðuð. Heredia Maya vildi vekja athygli á ákveðnum málstað og ná fram ákveðnum breytingum í samfélaginu og er farið yfir hvernig til tókst.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
queremos.hablar.ba.ritgerd.sigurdur.freyr.pdf | 319,79 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
yfirlysing.skemman.pdf | 31,36 kB | Locked | Yfirlýsing |