is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32290

Titill: 
  • Þungunarrof: Réttindi þungaðra kvenna og réttarvernd fósturs á Íslandi
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Þungunarrof hefur á síðustu áratugum verið mikið hitamál í daglegri umræðu og málefnið stendur nærri fjölmörgum einstaklingum á öndverðum pólum skoðana. Flestir hafa skoðun á málefninu en fæstum tekst að komast að afdráttarlausri niðurstöðu, enda um að ræða flókið samspil siðfræði, læknisvísinda og mannréttinda. Árið 2017 var 1.044 þungun löglega rofin á Íslandi. Konum er þó ekki frjálst að gangast undir þungunarrof á Íslandi heldur er það háð samþykki tveggja heilbrigðisstarfsmanna, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.
    Helsta viðfangsefni þessarar ritgerðar er að skoða hvaða hagsmunir ráða ferðinni við mat á því hvernig aðgengi kvenna að ráðstöfunum til að rjúfa þungun eigi að vera háttað, og hvernig vega skuli þá hagsmuni, hvaða réttindi þungaðar konur hafa í þessum málum og hvernig þau réttindi eru tryggð í raun og veru í íslenskum rétti. Þeir hagsmunir sem vega hvað þyngst á móti réttindum kvenna til að ráða yfir líkama sínum þegar kemur að því að rjúfa þungun eru réttindi fósturs og er því skoðað hvernig réttarvernd fósturs er háttað á Íslandi. Núgildandi lög um þungunarrof eru frá árinu 1975 en heilbrigðisráðherra hefur nú lagt fram á Alþingi nýtt frumvarp til laga um efnið sem boðar umtalsverðar breytingar, þ. á m. að þungunarrof skuli heimilað að ósk konu til loka 22. viku þungunar.
    Núgildandi lög nr. 25/1975 vernda ekki með fullnægjandi hætti friðhelgi einkalífs kvenna, þ. á m. líkamlegt sjálfræði þeirra og sjálfsákvörðunarrétt, né rétt kvenna til heilbrigðis. Með lögfestingu þess frumvarps til laga um efnið sem nú liggur fyrir Alþingi yrði úr þessu bætt og réttarstaða þungaðra kvenna yrði öruggari. Með frumvarpinu er einnig ætlað að bæta úr þeim greinarmun sem gerður er á fötluðum fóstrum og ófötluðum í núgildandi lögum nr. 25/1975 þar sem frumvarpið gerir ekki ráð fyrir lengri tímaramma leyfilegs þungunarrofs ef líkur eru á að barn muni fæðast með fötlun. Þvert á móti skuli einungis heimilt að rjúfa þungun eftir 22. viku þungunar ef lífi hinnar þunguðu konu er stefnt í hættu eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar. Með því fyrirkomulagi er sjálfsforræði kvenna virt án þess að gengið sé á jafnrétti fatlaðs fólks og ófatlaðs. Með tilliti til réttinda kvenna í tengslum við barneignir er mikilvægt að mælt sé fyrir um á skýran hátt að ákvörðunarvald um þungunarrof sé alfarið í höndum hinnar þunguðu konu. Þrátt fyrir að konur hafi í framkvæmd síðustu ára ekki verið hindraðar í að fá þungun sína rofna á fyrstu sextán vikum þungunar er núgildandi fyrirkomulag ófullnægjandi þar sem lögin kveða ekki með skýrum hætti á um að konur hafi þann rétt. Verði frumvarpið að lögum markar það tímamót í jafnréttisbaráttu kvenna því réttur þeirra til sjálfsforræðis, einkum þegar kemur að barneignum, er grundvallarþáttur jafnréttis kynjanna.

Samþykkt: 
  • 29.1.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/32290


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
SnædísBjörnsdóttir_skemman.pdf1.16 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing skemman.pdf100.81 kBLokaðurYfirlýsingPDF