Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32342
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna þátttöku í peningaspilum og algengi spilavanda meðal handboltafólks á Íslandi. Í rannsókninni var einnig skoðað hvort handboltaleikmenn á Íslandi væru að veðja á úrslit eigin leikja eða leikja í eigin deild. Öllum leikmönnum í meistaraflokki félagsliða í öllum deildum Íslandsmótsins 2017-2018 var boðin þátttaka. Alls svöruðu 309 þátttakendur og voru flestir þátttakendur á aldrinum 18-20 ára. Niðurstöður sýndu að alls höfðu tæplega 47% leikmanna tekið þátt í peningaspilum að minnsta kosti einu sinni á síðustu 12 mánuðum og 7,8% spilaði vikulega eða oftar. Vinsælasta tegund peningaspila var íþróttagetraunir. Spilavandi var metinn með Problem Gambling Severity Index og mældust 2% þátttakenda með spilavanda. Spilavandi var hærri hjá körlum og töldust 14,4% karla glíma við spilavanda eða voru í nokkurri áhættu á að þróa með sér spilavanda en aftur á móti engin kona. Kannað var hvort leikmenn þekktu aðra leikmenn sem veðjuðu á leiki eigin deildar eða á eigin leiki og alls sögðust 23,3% þátttakenda vita um leikmenn sem höfðu veðjað á leiki í eigin deild og tæp 6% um leikmenn sem höfðu veðjað á eigin leiki. Þegar þetta var kannað meðal leikmanna sjálfra reyndust hinsvegar aðeins 7,1% leikmanna veðja á leiki í eigin deild. Frekari athugun leiddi í ljós að þegar aðeins þeir sem veðja á handboltaleiki voru kannaðir þá voru 38% sem veðjuðu á leiki í eigin deild og 10,3% veðjuðu á eigin leiki. Niðurstöður gefa vísbendingar um að af heildarþátttöku eru ekki svo margir sem veðja á leiki í eigin deild eða eigin leiki. Hins vegar er stórt hlutfall þeirra sem veðja á handbolta að veðja á annað hvort leiki í eigin deild eða eigin leiki. Jafnframt gefa þessar niðurstöður vísbendingar um að þeir leikmenn sem stundi slík veðmál séu líklegri til að veðja ólöglega á eigin leiki og það geti aukið freistni áhættu fyrir hagræðingu úrslita.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerð- Guðmundur Sigurðsson.pdf | 308.39 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing.Guðmundur.pdf | 185.25 kB | Lokaður | Yfirlýsing |