Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32349
Inngangur: Offita er eitt stærsta heilsufarsvandamálið í heiminum í dag. Magahjáveituaðgerð gerir einstaklingum kleift að missa allt að 70% af aukaþyngd sinni. Langtímaáhrif magahjáveituaðgerðar á beinheilsu eru ekki vel þekkt, aðeins örfáar rannsóknir hafa staðið lengur en tvö ár, en þær hafa bent til þess að beintap haldi áfram að eiga sér stað þó stöðugri líkamsþyngd hafi verið náð. Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að skoða breytingar á beinþéttni á fyrstu þremur árum eftir magahjáveituaðgerð og meta áhættu á beinrýrnun meðal þeirra sem undirgangast slíka aðgerð. Skoðað verður hvort beinþéttni, D-vítamín og kalkgildi í blóði fyrir aðgerð spái fyrir áhættu á að lenda í beinrýrnun eftir aðgerð. Efni og aðferðir: Beinþéttni einstaklinga sem undirgengust magahjáveituaðgerð var mæld á Rannsóknarstöð Hjartaverndar með beinþéttnimælitæki. Alls voru 33 einstaklingar sem komu í 36 mánaða mælingu. Mælt var í lendhrygg, lærleggshálsi, lærleggshnútu, Wards triangle og heildar mjöðm ásamt því að D-vítamín og kalkgildi í blóði var mælt á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Niðurstöður: Heildarfjöldi þátttakenda var 70 manns fyrir aðgerð en við mælingu eftir 36 mánuði voru 26 konur og 7 karlar. Lækkun á beinþéttni var marktæk á öllum mælistöðum bæði hjá körlum og konum. Lækkun var á lærleggshálsi um 10,4%, í Wards triangle um 14%, í lærleggshnútu um 14,9%, heildar mjöðm um 13,4% og lendhrygg um 10,3%. Á öllum mælistöðum var beintapið meira meðal kvenna en karla. Greining á beinrýrnun var tíðust í Wards triangle þar sem 48% kvenna voru með beinrýrnun. Sterk jákvæð fylgni var á milli mælinga við grunnmælingu og 36 mánuði, þátttakendur sem höfðu lág gildi fyrir aðgerð höfðu einnig lág gildi eftir 36 mánuði. Þremur árum eftir aðgerð voru aðeins 12% einstaklinganna í kjörþyngd og 9% voru með sjúklega offitu samkvæmt BMI stuðli. D-vítamín og kalkmælingar höfðu ekki tengsl við breytingar á beinþéttni. Ályktanir: Magahjáveituaðgerð hefur neikvæð áhrif á beinheilsu einstaklinganna. Stór hluti einstaklinga í þessari rannsókn greindist með beinrýrnun á að minnsta kosti einum mælistað þremur árum eftir aðgerð sem hlýtur að vera umhugsunarefni og kalla á frekari eftirfylgni með þessum hópi. Því er nauðsynlegt að rannsaka áhrif magahjáveituaðgerðarinnar á beinheilsu einstaklinga frekar og veita sjúklingum stuðning og aðhald í kjölfar aðgerðar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Tengsl magahjáveituaðgerða við beinrýrnun.pdf | 4,6 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing.pdf | 99,46 kB | Lokaður | Yfirlýsing |