Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/32402
Rannsóknir hafa sýnt að atvinnuleysi hefur reynst algengt hjá fólki með einhverfurófsröskun (ERR) og að margir með röskunina hafi lent í erfiðleikum á atvinnumarkaðinum. Algengi kvíða, þunglyndis og sjálfsskaða hefur jafnframt reynst hátt hjá þeim. Svo virðist sem samband atvinnuleysis við kvíða, þunglyndi og sjálfsskaða hjá fólki með ERR hafi lítið verið rannsakað. Í þessari ritgerð voru markmiðin nokkur. Í fyrsta lagi var ætlunin að skoða algengi atvinnuleysis hjá fólki með ERR, bæði hér á Íslandi og í Evrópu, út frá gögnum úr ASDEU-rannsókn Evrópuráðsins. Að auki vildum við skoða ástæður atvinnuleysisins og hvort að þátttakendur hefðu fengið stuðning við atvinnu og hvernig stuðningur þeim þætti ákjósanlegur. Í öðru lagi skoðuðum við algengi kvíða, þunglyndis og þess að hafa framkvæmt eða reynt að framkvæma sjálfsskaðandi hegðun út frá sömu gögnum. Að lokum var þriðja og aðalmarkmiðið hér að nota gögn þessarar rannsóknar til að skoða samband atvinnuleysis við þunglyndi, kvíða og sjálfsskaða. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til að atvinnuleysi væri hátt hjá fólki með einhverfu. Þó reyndist það lægra hjá íslenskum þátttakendum samanborið við aðra þátttakendur í Evrópu. Algengi kvíða, þunglyndis og sjálfsskaða reyndist mjög hátt. Ekki fundust marktæk tengsl fyrir samband atvinnuleysis við þunglyndi og kvíða en samt sem áður kom í ljós að hátt hlutfall þátttakenda sem höfðu verið greindir með þunglyndi voru atvinnulausir. Þá fundust marktæk tengsl fyrir samband atvinnuleysis við það að hafa framkvæmt eða að hafa reynt að framkvæma sjálfsskaða. Þessa rannsókn væri áhugavert að endurtaka með stærra úrtaki íslenskra þátttakenda.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
BS_skemman.pdf | 750,68 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
Skemman_yfirlysing.pdf | 165,37 kB | Locked | Yfirlýsing |