Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32530
Þegar dómari lendir í þeirri aðstöðu að ekki verður leyst úr fyrirliggjandi máli á grundvelli settra laga, hvorki fordæmi né venju er til að dreifa og lögjöfnun er ótæk hefur verið kennt að byggja megi niðurstöðu á meginreglum laga og eðli máls. Meginreglur laga eru því ein réttarheimilda íslensks réttar. Þær eru þau grunnsjónarmið sem standa að baki lögunum eða felast í þeim og unnt er að leiða fram og orða í meginreglu þegar hennar er þörf. Þær eru sömuleiðis þýðingarmikið lögskýringarsjónarmið þar sem rík tilhneiging er til þess að túlka lagaákvæði til samræmis við þær og undantekningar frá þeim þröngt.
Ritgerðinni er ætlað að varpa frekara ljósi á þessa sérstöku réttarheimild. Eftir örfá orð um stjórnskipan Íslands og grundvöll hennar hefst umfjöllun um samfélagslega nauðsyn laga og þær staðreyndir sem búa þeim að baki. Þörf fyrir reglusetningu svarar því hins vegar ekki hvernig meginreglurnar verða til. Stærstur hluti ritgerðarinnar fjallar um uppruna þeirra og eðli. Síðari hluti ritgerðarinnar fjallar svo um beitingu meginregla laga. Sú umfjöllun er bundin við réttarsvið stjórnsýsluréttar þar sem grundvöllur þess er skýr og eitt helsta einkenni réttarsviðsins hve margar almennar efnisreglur þess eru óskráðar meginreglur laga eða voru upphaflega óskráðar meginreglur laga sem síðan hafa öðlast skráningu.
Ritgerðin er skrifuð á sviði almennrar lögfræði og því ekki farið djúpt í beitingu meginreglanna á sviði stjórnsýsluréttar. Umfjöllunin tengist þá óhjákvæmilega sviði réttarheimspeki þar sem svar við því hvaðan meginreglurnar eru upprunnar ræðst af því hvort sá sem svarar aðhyllist lagakenningu í anda náttúruréttar eða vildarréttar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Um meginreglur laga.pdf | 591.26 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Undirrituð yfirlýsing um meðferð starfræns eintaks lokaverkefnis.pdf | 130.28 kB | Lokaður | Yfirlýsing |