Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32544
Viðfangsefni ritgerðarinnar er fjártækni auk þess sem farið verður yfir veigamikla þætti í rekstri íslenskra viðskiptabanka með hliðsjón af uppgangi fjártækni í heiminum. Með ritgerðinni verður ljósi varpað á framtíð íslenskra viðskiptabanka nú á tímum fjártækni.
Ritgerðin skiptist í sex kafla, en í hverjum kafla verður tæpt á mikilvægum atriðum er varða rekstur viðskiptabanka. Til að byrja með verður farið yfir þróun fjártækni síðustu ár og þann mikla kipp sem þróunin tók í kjölfar alþjóðlega efnahagshrunsins 2008. Í köflunum fjórum þar á eftir verða veigamiklir þættir í rekstri viðskiptabanka reifaðir auk þess sem farið verður yfir hvað sé til ráða fyrir íslensk fjármálafyrirtæki. Að endingu verður umfjöllun um ríkisrekstur íslenskra viðskiptabanka.
Framfarir á sviði fjártækni hafa verið gríðarlegar allra síðustu ár og gera má ráð fyrir að enn stærri skref verði tekin næstu ár. Fjártækni er tækni sem miðar að því að fækka milliliðum og lækka kostnað við fjármálaþjónustu, sá kostnaður hafði fram til þessa lent á einstaklingum eða fyrirtækjum. Arðsemi íslenskra viðskiptabanka hefur verið á niðurleið síðustu ár, en til að bregðast við þróuninni hafa íslenskir bankar svarað samkeppninni með aukinni fjárfestingu í nýsköpun. Ljóst er að grípa þarf til róttækari aðgerða ef ekki á illa að fara.
Þrátt fyrir gríðarlega háan rekstrarkostnað búa íslenskir viðskiptabankar að sterku eiginfjárhlutfalli og góðri fjárhagsstöðu sem auðvelda mun nauðsynlegar aðgerðir. Í farvatninu eru óvissutímar þar sem forvitnilegt verður að fylgjast með hvernig forsvarsmenn banka bregðast við. Ljóst er að íslenskir bankar standa frammi fyrir tveimur kostum. Annað hvort bregðast þeir við og sækja fram eða bíða örlaga sinna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Aron Þórður Albertsson.pdf | 376.09 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Doc1.pdf | 236.9 kB | Lokaður | Yfirlýsing |