is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32545

Titill: 
  • Meginreglan um að fóstur megi ekki deyða: Breytt inntak í takt við breyttar áherslur löggjafans
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í lögskipan þar sem meginreglan um að fóstur megi ekki deyða er afdráttarlaus, ríkir blátt bann við þungunarrofi. Því kann að skjóta skökku við í hugum margra að reglan sé meginregla íslensks réttar, þar sem hátt í þúsund þungunarrof hafa verið framkvæmd á Íslandi á ári hverju síðastliðin tuttugu ár. Meginreglan um að fóstur megi ekki deyða er þó ólögfest meginregla íslensks réttar og hefur sjálfstæða tilvist í lögum. Meginreglan leiðir af annarri dýpri meginreglu laga, þeirri fornu meginreglu að menn eigi rétt til lífs. Sú regla hefur verið talin svo sjálfsögð í íslenskum rétti að óþarft sé að taka hana fram í settum lögum. Hins vegar er hún lögfest í 1. mgr. 2. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 (hér eftir skammstafaður MSE).
    Í þessari ritgerð verður leitast við að varpa ljósi á hvernig inntak meginreglunnar hefur tekið breytingum í tímanna rás samhliða breyttu hagsmunamati löggjafans. Þróun hennar verður rakin frá setningu almennra hegningarlaga handa Íslandi frá 25. júní 1869 til dagsins í dag. Í upphafi verður hugtakið meginreglur laga skilgreint, gerð grein fyrir ólíkum tilbrigðum þeirra og því hvernig beiting þeirra horfir við sem réttarheimild og lögskýringarsjónarmið. Þá verður vikið að umfjöllunarefni ritgerðarinnar, meginreglunni um að fóstur megi ekki deyða. Leitast verður við að skýra tengsl hennar við meginregluna um réttinn til lífs með því að líta til skýringa eftirlitsstofnana Evrópu á 1. mgr. 2. gr. MSE. Ákvæði almennra hegningarlaga verða skoðuð til að varpa ljósi á það hvernig líf fósturs horfir við lífi manneskju í íslenskum rétti og hvernig útfærsla meginreglunnar hefur þróast. Þar að auki verður þungunarrofslöggjöf rakin frá setningu fyrstu laganna um þungunarrof árið 1935 til dagsins í dag. Að lokum verður umrædd réttarþróun frá árinu 1869 dregin saman til að skýra inntak meginreglunnar um að fóstur megi ekki deyða og hvernig framtíð hennar horfir við.
    Í ritgerðinni verður stuðst við orðið þungunarrof þegar þungun er rofin áður en fóstur nær lífvænlegum þroska og orðið kona um þann einstakling sem gengur með fóstur. Orðnotkun þessi er í samræmi við frumvarp það sem er í meðförum Alþingis þegar ritgerðin er skrifuð. Um leið vill höfundur árétta að hún gerir sér grein fyrir því að þungun er ekki bundin við kyn af þeirri ástæðu að einstaklingar upplifa og skilgreina eigið kyn óháð líffræðilegu kyni.

Samþykkt: 
  • 16.4.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/32545


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Skemman_yfirlysing.pdf183.41 kBLokaðurYfirlýsingPDF
BA-ritgerðIBIÁ.pdf368.18 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna