Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32551
Seðlabanki Íslands ber ábyrgð á framfylgd peningastefnunnar á Íslandi. Megin markmið Seðlabankans er að viðhalda verðstöðugleika en það gerir hann meðal annars með því að stýra vöxtum á peningamarkaði. Niðurstöður vaxtaákvarðana hans kvíslast niður um hagkerfið og hafa meðal annars áhrif á eignaverð í landinu.
Framkvæmd er atburðarannsókn þar sem áhrif vaxtaákvarðana Seðlabankans á hlutabréfaverð 16 fyrirtækja í Kauphöll Íslands eru skoðuð. Vaxtaákvarðanir eru annars vegar flokkaðar eftir niðurstöðu og hins vegar eftir því hvort niðurstaðan er talin hafa komið markaðnum á óvart. Væntingar markaðarins eru metnar með því að rýna í spár greiningardeilda Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans fyrir hverja vaxtaákvörðun. Áætluð ávöxtun hlutabréfa er metin út frá markaðslíkani og borin saman við raunverulega ávöxtun hlutabréfanna. Umframávöxtun er svo mæld með því að draga áætlaða ávöxtun frá raunverulegri ávöxtun. Að lokum er meðaltals umframávöxtun tekin saman fyrir hvern flokk ásamt uppsafnaðri meðaltals umframávöxtun til að meta heildaráhrif á hlutabréfaverð eftir flokkum vaxtaákvarðana.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að markaðurinn bregðist nokkuð rökrétt við vaxtaákvörðunum Seðlabankans. Vaxtahækkanir hafa svipuð áhrif á tilkynningardegi og vaxtalækkanir en heildaráhrif vaxtalækkana virðast vera meiri. Þá hafa vaxtaákvarðanir, þar sem niðurstaðan var metin óvænt, mun oftar tölfræðilega marktæk áhrif á hlutabréfaverð á tilkynningardegi heldur en vaxtaákvarðanir þar sem niðurstaðan var metin vera í samræmi við væntingar markaðarins. Heildaráhrif vaxtaákvarðana þar sem niðurstaðan var metin óvænt eru einnig meiri en heildaráhrif vaxtaákvarðana þar sem niðurstaðan var talin hafa verið í samræmi við væntingar markaðarins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áhrif vaxtaákvarðana Seðlabanka Íslands á hlutabréfaverð.pdf | 2.06 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman - Yfirlýsing.pdf | 1.09 MB | Lokaður | Yfirlýsing |