Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32620
Viðfangsefni ritgerðarinnar er að kanna hvernig pólitískt grín birtist á Íslandi út frá Spaugstofunni, grínþætti sem var sýndur á laugardagskvöldum á veturna hjá RÚV og síðar Stöð 2 í nærri þrjá áratugi með hléum, og Áramótaskaupinu, klukkutíma skemmtiþætti sem sýndur er á gamlárskvöld ár hvert hjá RÚV. Reynt verður að komast að því hvernig pólitískt grín er gert fyrir heila þjóð og hvort það séu einhverjar reglur í gríni. Einnig verða áhrif grínsins skoðuð á bæði einstaklinga og samfélagið sem heild.
Gerð verður grein fyrir nokkrum kenningum í húmorfræðum: Losunar-, ósamræmis- og yfirburðakenningunum, kenningum Henri Bergson og Avner Ziv um áhrif grínsins, og gríni sem heilun. Tekin voru viðtöl við fimm landsþekkta grínista; Ara Eldjárn, Önnu Svövu Knútsdóttur og Eddu Björgvinsdóttur (Áramótaskaupið) ásamt Karli Ágústi Úlfssyni og Erni Árnasyni (Spaugstofan) og viðtölin eru notuð til þess að draga fram þeirra upplifun á þessu flókna fyrirbæri. Gerð verður grein fyrir sögu Spaugstofunnar og Áramótaskaupsins og ýmis dæmi um pólitískt grín þeirra í gegnum tíðina tekin fyrir. Að lokum voru viðtölin síðan notuð í niðurstöðum til þess að svara rannsóknarspurningunni; Getur grín haft áhrif á samfélagið? Niðurstöðurnar sýndu fram á að grín gæti að einhverju leyti haft áhrif á samfélagið en voru áhrifin oftast skammtíma. Það skiptir einnig máli að nálgast viðfangsefnið á réttan hátt þar sem mál geta oft verið eldfim. Viðmælendur lýstu því þó, að grín væri sífellt að taka breytingum og því nauðsynlegt að vera með puttann á púlsinum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Pólitískt-grín-LOKALOKA.pdf | 510,25 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing - skemma.pdf | 137,34 kB | Lokaður | Yfirlýsing |