Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32673
Í ritgerðinni verður leitast við að svara spurningunni hvort finna megi einkenni popúlisma í orðræðu Donald J. Trump Bandaríkjaforseta. Hugtakið popúlismi verður skilgreint og mun megináhersla vera lögð á þrjú meginhugtök popúlismans, fólkið, elítuna og almannaviljann. Einnig verður fjallað um mismunandi tegundir popúlismans, sérstaklega þjóðernispopúlisma, sem einnig mætti kalla öfga hægri popúlisma. Í ritgerðinni er lögð áhersla á popúlisma í Bandaríkjunum frá tíunda áratug síðustu aldar til samtímans og verður greint frá helstu popúlísku stjórnmálamönnum á því tímabili. Færð verða rök fyrir því að ákveðið mynstur hafi myndast í bandarískum stjórnmálum á tíunda áratugnum þar sem popúlískir forsetaframbjóðendur hafa boðið fram í flestum kosningum síðan þá. Í forsetakosningunum árið 2016 má segja að sprenging hafi orðið í framboði popúlískra stjórnmálamanna en Donald Trump er einn þeirra frambjóðenda sem sterklega hefur verið orðaður við popúlisma. Sú aðferð sem notuð verður til þess að svara ritgerðarspurningunni er orðræðugreining og gögnin sem greind verða eru tvær ræður Trump, annars vegar úr kosningabaráttunni 2016 og hins vegar þegar hann tók við embætti forseta árið 2017. Orðræðugreiningin miðaði að því að athuga hvort finna mætti í ræðum Trump tilvísanir í þrjú meginhugtök popúlismans, fólkið, elítuna og almannaviljann. Markverðustu niðurstöður orðræðugreiningarinnar eru þær að umtalsverður fjöldi af tilvísunum í fólkið, elítuna og almannaviljann fundust í ræðum Trump en helsta áhersla hans var á fólkið og elítuna. Aðrar niðurstöður voru þær, að einkenni þjóðernispopúlisma fundust í orðræðu Trump. Þær ályktanir sem af niðurstöðunum má draga eru þær, að Trump er popúlískur stjórnmálamaður og einkennist orðræða hans af þjóðernispopúlisma.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Rafræn yfirlýsing.pdf | 249.39 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Lokaverkefni pdf.pdf | 449.92 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |