is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32829

Titill: 
  • Athugun á tvinnhljóðum í máli 36 íslenskra barna: Áhrif enskuílags, aldurs og kyns
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Þessi ritgerð er lögð fram sem lokaverkefni til B.A.-prófs í almennum málvísindum. Tvinnhljóðaframburður 36 eintyngdra íslenskra barna á aldrinum 3-12 ára sem búsett eru á höfuðborgarsvæðinu var kannaður en var notast við gögn úr öndvegisverkefni Sigríðar Sigurjónsdóttur og Eiríks Rögnvaldssonar (2018) sem styrkt er af Rannsóknarsjóði Íslands 2016-2019. Niðurstöður sýna að tvinnhljóðaframburður kom fram í máli allra þátttakanda nema eins og þegar hann kom fram var tannbergsmælt tvinnhljóð algengara en tannbergs-gómmælt tvinnhljóð. Einnig benda niðurstöður til að enskuílag hafi áhrif á tvinnhljóða-framburð í máli íslenskra barna þó að munurinn hafi ekki verið marktækur í neinu tilfelli. Þannig var há fylgni á milli enskuílags og tvinnhljóðaframburðar þátttakenda. Auk þess voru börn með mikið enskuílag líklegri til að bera fram skýr tvinnhljóð (fremur en hálftvinnhljóð eða vafahljóð) en börn með mið eða lítið enskuílag. Aldur hafði áhrif á niðurstöður þótt tenging þar á milli hafi ekki verið línuleg og ekki sé ljóst af hverju hún stafar. Marktækur munur kom tvisvar fram þegar aldurshópar voru bornir saman, annars vegar á yngsta og elsta aldurshópnum og hins vegar á næstyngsta og elsta aldurshópnum. Elsti aldurshópurinn hafði oftast lægsta meðaltal tvinnhljóðaframburðar á þeim orðum sem fengu einhvern áberandi markaðan framburð, þ.e. tvinnhljóðaframburð. Auk þess var elsti aldurshópurinn eini hópurinn sem aldrei hafði markaðan framburð á orðinu tígull en slíkur framburður kom fram í öllum öðrum aldurshópum. Yngri börn voru því líklegri til að nota tvinnhljóð eða vafaframburð en eldri börnin. Munur á niðurstöðum kynja var lítill og ekki marktækur. Há fylgni var á milli kynja enda voru flestar niðurstöður drengja og stúlkna svipaðar.
    Hægt er að túlka þessar niðurstöður þannig að tvinnhljóðaframburður í máli íslenskra barna sé að aukast með auknu enskuílagi í málumhverfi ungra barna á máltökuskeiði en niðurstöður rannsóknar sem gerð var árið 2007 á tvinnhljóðaframburði í máli unglinga og fullorðins fólks benda þó til að þetta tilbrigði í framburði sé a.m.k. nokkurra áratuga gamalt. Í túlkun á niðurstöðum ber þess þó að gæta að gögn í þessari athugun byggjast aðeins á 36 börnum og því er ekki hægt að fullyrða um tvinnhljóðaframburð í máli íslenskra barna almennt. Niðurstöður þessarar ritgerðar gefa þó til kynna að aldur hafi sterkari áhrif á tvinnhljóða-framburð íslenskra barna en enskuílag þeirra ef miðað er við niðurstöður tölfræðilegra marktækniprófa.

Samþykkt: 
  • 9.5.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/32829


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Athugun á tvinnhljóðum í máli 36 íslenskra barna.pdf628.82 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman yfirlysing.pdf187.52 kBLokaðurYfirlýsingPDF