Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32832
Þessi ritgerð er lögð fram til BA-prófs í almennum málvísindum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Umfjöllunarefni hennar er svokölluð umröðun (e. object inversion) tveggja andlaga sagna í íslensku, þ.e. þegar beina andlagið kemur á undan því óbeina í línulegri röð. Þannig er ekki aðeins hægt að segja „Ég gaf konunginum ambáttina“ (ómörkuð orðaröð) heldur líka „Ég gaf ambáttina konunginum“ (umröðun). Lítið er vitað með vissu um umröðun annað en að hún er yfirleitt bara möguleg með (sumum) sögnum sem taka óbeint andlag í þágufalli og beint andlag í þolfalli, og þá einungis ef andlögin lúta ákveðnum hljóðkerfisskilyrðum.
Meginviðfangsefni ritgerðarinnar er tölfræðirannsókn sem var gerð á tíðni umröðunar í náttúrulegum gögnum. Skoðaðar voru 85 ÞGF-ÞF-sagnir í tveimur undirmálheildum Risamálheildarinnar, Alþingisræðum og fréttum af Vísi.is. Risamálheildin býður upp á nýja og áður óþekkta möguleika í málfræðirannsóknum og er þetta fyrsta rannsóknin á umröðun sem byggist á því að skoða tíðni hennar og raunveruleg dæmi.
Helstu niðurstöður eru að talsverður munur virðist vera á sögnum og hve auðveldlega þær geta tekið umröðun, mögulega í tengslum við merkingu sagnanna og hve auðveldlega er hægt að sleppa óbeina andlaginu með þeim. Til dæmis fundust mun fleiri umröðunardæmi með sögnunum „afhenda“ og „tilkynna“ en „gefa“ og „segja“. Viðtakandinn er e.t.v. ekki eins mikilvægur fyrir verknað fyrri sagnanna og þeirra seinni og þ.a.l. auðveldara að sleppa óbeina andlaginu með þeim.
Í samræmi við það sem hefur verið skrifað fundust nær engin umröðunardæmi með sögnum öðrum en ÞGF-ÞF-sögnum og í nær öllum tilvikum þar sem beint andlag kemur á undan óbeinu andlagi er óbeina andlagið léttara en það beina, m.t.t. atkvæða- eða orðafjölda. Þó fundust nokkur umröðunardæmi þar sem óbeina andlagið er léttara en það beina, t.d. fornafn.
Þá eru umröðun og frestun þungs nafnliðar mun algengari í Alþingisræðum en á Vísi.is og fundust vísbendingar á báðum stöðum um að hlutfalli þeirra fari minnkandi með árunum. Það gæti bent til þess að umröðun teljist til formlegs máls eða eldra málsniðs eða þá að ritmál hafi orðið óformlegra í tímans rás.
Þrátt fyrir allt er umröðun mjög sjaldgæf og mörkuð setningagerð sem kemur aðeins fyrir í um 0,24% af heildarnotkun tveggja andlaga sagna og er jafnvel enn sjaldgæfari og takmarkaðri en áður var haldið.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Eg_sendi_ritgerdina_Skemmunni.pdf | 565.32 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlysing_Bolli_Magnusson.pdf | 425.17 kB | Lokaður | Yfirlýsing |