Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32859
Þessi ritgerð er lögð fram til BA-prófs í íslensku við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Hún fjallar um breytingar á beygingu kvenkynsnafnorða með viðskeytið -ing, eins og til að mynda kenning, frá tímum forníslensku til nútímamáls. Þessi orð hafa lengi haft sérstæða beygingu. Ólíkt flestum öðrum orðum af ō-stofni sem eru endingarlaus í þágufalli héldu kvenkynsnafnorð sem enda á -ing eldri endingunni -u og tóku hana síðar meir einnig upp í þolfalli. Nýlega hafa slík orð jafnframt fengið eignarfallsendinguna -u í stað eldri endingarinnar -ar. Með þessari breytingu hefur endingin -u verið alhæfð í öllum aukaföllum eintölu og beygjast orðin því eins og veik kvenkynsnafnorð á borð við saga. Beyging -ing-orða er eigi að síður sérstök þar sem orðin hafa enga tilhneigingu til að taka upp á nefnifallsendinguna -a sem einkennir veik kvenkynsnafnorð. Þessi rannsókn leiddi enn fremur í ljós að þágufallsendingin -u hörfaði undan endingarleysi í miklum mæli á 13., 14. og 15. öld. Beyging orðanna stefndi því í átt að beygingu annarra orða af ō-stofni þótt sú þróun hafi síðar gengið til baka, en fram að þessu hefur lítið verið fjallað um þessa breytingu.
Í ritgerðinni verður beygingarsaga kvenkynsnafnorða með viðskeytið -ing rakin með hliðsjón af ritheimildum frá 12.–21. aldar auk þess sem yfirlit verður gefið yfir forsögu og fyrri skrif fræðimanna um þessi orð. Ritheimildirnar eru af ýmsum toga og eru raktar í tímaröð, að undanskilinni könnun á íslenskum Nýja testamentisþýðingum. Þær voru gefnar út frá 16. til 21. aldar og eru til umfjöllunar í sérkafla. Að lokum verða breytingar á beygingu orðanna ræddar og greindar út frá kenningum um áhrifsbreytingar. Leitast er við að svara því hvernig beyging kvenkynsnafnorða með viðskeytið -ing hefur þróast í þágufalli, hvaða heimildir eru um að endingin -u hafi hörfað og hvenær og hvernig þolfall þessara orða fékk endinguna -u. Að lokum er reynt að svara því hvers vegna þau geta fengið sömu endingu í eignarfalli.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Oddur SnorrasonBAritgerð.pdf | 1.88 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_Oddur.pdf | 677.71 kB | Lokaður | Yfirlýsing |