Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/32863
Þessi ritgerð er lögð fram til B.A.-prófs í almennum málvísindum við Háskóla Íslands. Viðfangsefni hennar er útvíkkun á notkunarsviði framvinduhorfs sem tjáð er með setningagerðinni vera að + nh. Til þess að sögn geti staðið í framvinduhorfi þarf hún að uppfylla tvö merkingarleg skilyrði. Annars vegar þarf frumlag hennar að hafa eiginleikann stjórn og hins vegar þarf verknaðurinn sjálfur að hafa tímabindingu. Útvíkkað framvinduhorf tekur sérstaklega til verknaðargerðarinnar ástands. Venjulegar ástandssagnir uppfylla hvorugt fyrrnefndra skilyrða sem framvinduhorf krefst. Með útvíkkun framvinduhorfs öðlast ástandssagnir annan hvorn þessara merkingarlegu eiginleika og geta því staðið í framvinduhorfi, ólíkt því sem áður var.
Í þessari ritgerð verður útbreiðsla útvíkkaðs framvinduhorfs á síðustu 12 árum athuguð. Kenningar hafa verið settar fram um hugsanleg áhrif ensku á tilkomu og útbreiðslu tilbrigðisins. Því verða áhrif enskuílags þátttakenda á tilbrigðið könnuð. Athugunin beinist að íslenskum ungmennum á aldrinum 13-15 ára. Stuðst er við niðurstöður úr tveimur rannsóknum sem gerðar voru með u.þ.b. 12 ára millibili. Niðurstöður rannsóknarverkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis (2016-2019) verða bornar saman við niðurstöður úr rannsóknarverkefninu Tilbrigði í íslenskri setningagerð (2005-2007). Fyrst eru niðurstöður rannsóknanna tveggja á útvíkkun framvinduhorfs með fimm ástandssögnum bornar saman. Samanburðurinn sýnir að samþykki á útvíkkuðu framvinduhorfi hefur aukist með öllum fimm sögnum á þeim 12 árum sem liðu á milli rannsóknanna tveggja. Niðurstöður athugunarinnar benda því til að útvíkkað framvinduhorf sé enn að breiðast út í íslensku. Síðan er fylgni milli samþykkis á útvíkkuðu framvinduhorfi og hlutfalls ensku í heildarílagi (e. input) þátttakenda rannsökuð út frá niðurstöðum Greiningar á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis. Niðurstöður línulegrar aðhvarfsgreiningar sýna enga fylgni milli hækkandi hlutfalls ensku í heildarílagi og samþykkis á setningum í útvíkkuðu framvinduhorfi í þeim gögnum sem hér er til athugunar. Frekari úrvinnsla úr gögnum rannsóknarinnar gæti þó leitt aðrar niðurstöður í ljós meðal yngri aldurshópa.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA_Salome.pdf | 842.9 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
anonym1247_2019-05-08_15-38-56.pdf | 299.41 kB | Lokaður | Yfirlýsing |