Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/32921
Vinnustaðamenning skipulagsheilda getur haft mikil áhrif á starfsemi, árangur og frammistöðu starfsmanna. Vinnustaðamenning er jafnframt mjög flókið fyrirbæri þar sem hún er óáþreifanleg og oft samspil nokkurra þátta eins og sögu, gilda, hefða, hetja og menningarneta starfsfólks.
Markmið rannsóknarinnar var að skoða vinnustaðamenningu skrifstofa Reykjavíkurborgar og meta styrkleika og veikleika hennar. Einnig var kannað hvort mælanlegur munur væri á vinnustaðamenningu eftir starfsaldri, hvort starfsmenn hefðu tekið þátt í styttingu vinnuviku eða hefðu mannaforráð.
Rafrænn spurningalisti byggður á Denison-líkaninu var lagður fyrir starfsmenn í ágúst 2018 en alls svöruðu 174 honum. Spurningalistinn mælir styrkleika fjögurra menningarvídda og er ætlað að sýna fram á tengsl milli menningareinkenna og árangurs. Menningarvíddirnar fjórar eru aðlögunarhæfni, hlutverk og stefna, þátttaka og aðild og samkvæmni og stöðugleiki.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að vinnustaðamenning skrifstofa Reykjavíkurborgar sé veik þar sem allar víddirnar fjórar eru á aðgerðabili. Helstu styrkleikar hennar eru að starfsmenn upplifa sig sem hluta af teymi, frelsi til ákvarðanatöku virðist vera nokkuð og þeir finna til ábyrgðar. Áhersla virðist vera á þróun mannauðs og hæfni starfsmanna og þeir virðast hafa mikinn skilning á stefnu skipulagsheildarinnar.
Veikleikarnir felast í viðhorfum til markmiðasetningar og framtíðarsýn Reykjavíkurborgar ásamt því að ólík svið og skrifstofur virðast ekki vinna nægilega vel saman sem getur verið hamlandi fyrir árangur skipulagsheildarinnar. Skipulagsheildin virðist einnig vera í nokkurri andstöðu við breytingar. Leggja mætti aukna áherslu á samvinnu milli sviða og skrifstofa ásamt því að hvetja starfsmenn til að koma auga á breytingar og aðlagast nýjum venjum. Þrátt fyrir að einkunnir mælist allar á aðgerðabili og úrbóta sé þörf þá á skipulagsheildin ekki langt í land með að komast á starfhæft bil varðandi yfirvíddirnar til þess að efla árangur sinn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Vinnustaðamenning á skrifstofum Reykjavíkurborgar.pdf | 5,26 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirlysing.pdf | 212,75 kB | Lokaður | Yfirlýsing |
Athugsemd: Viðskiptafræðideild hefur samþykkt lokaðan aðgang að þessari ritgerð í þrjú ár.